UPPLÝSANDI FUNDUR UM ORKUMÁLIN
Á hádegisfundi í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík í dag var fjallað um 3. Orkupakkann sem svo er nefndur og spurt hvort við kynnum að missa yfirráð yfir orkunni og þá hvort orkupakkinn væri enn ein varðan á þeirri vegferð.
Sjálfur er ég sannfærður um að svo sé og gekk vel rökstudd umræðan á fundinum einnig mjög í þessa átt. Fyrir Alþingi liggur þingsáslyktunartillaga frá ríkisstjórninni sem augljóslega er mjög vanreifuð og væri skynsamlegast að hún yrði dregin til baka og málið allt endurskoðað.
Frummælendur í Safnahúsinu í dag rýndu í málið frá mismunandi sjónarhólum en þeir eiga það sameiginlegt að búa yfir mikilli þekkingu á málefninu.
Þeir voru: Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, Birgir Örn Steingrímsson, hag- og fjármálafræðingur, Elías B. Elíasson, verkfræðingur, Erlendur Borgþórsson, framkvæmdastjóri, Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og Ingibjörg Sverrisdóttir, ferðaráðgjafi.
Fundurinn var vel sóttur - margir urðu frá að hverfa - og var honum jafnframt streymt en hljóðupptakan var ekki sem skyldi og standa vonir til að úr því hafi verið bætt áður en helgin er öll, alla vega þá strax eftir helgi. Þá verður slóðina að finna á þessari síðu svo og heimasíðunni orkan okkar og hugsanlega víðar.
Frá því er skemmst að segja að fundurinn þótti mjög upplýsandi og því gagnlegur öllum þeim sem sóttu hann.
Þetta mun allt koma í ljós.