Fara í efni

UPPLÝSANDI OG GEFANDI FUNDUR!

KONUR KURDAR
KONUR KURDAR

Hátt í hundrað manns sóttu fund um málefni Kúrda í Iðnó í gær þar sem þær Ebru Günay og Havin Guneser fjölluðu um frelsisbaráttu, hlutskipti og framtíð Kúrda og hugmyndafræði Öcalans, Kúrdaleiðtoga, sem setið hefur í fangelsi síðan 1999.

Fundinn sóttu hátt í hundrað manns og þótti takast vel. Ebru sem er í lögfræðingateymi Öcalans og sat í fangelsi í fimm ár fyrir vikið, fjallaði um hlutskipti Öcalans í einangrunarfangelsinu  á Imrali eyju og meðferð á pólitískum föngum í Tyrklandi.

Havin tók síðan við og rakti þróunarferil hugmyndafræði róttækra Kúrda, allt frá því að vera marx-lenínísk byltingarsamtök sem lögðu áherslu á sjálfstætt ríki Kúrda yfir í nýja nálgun til að tryggja áhrif almennings í samfélaginu þar sem áhersla var á að allir hópar ættu aðkomu. Á þessu byggir módelið sem Kúrdar hafa komið á fót í Rojava í norðurhluta Sýrlands. Þetta módel er litið hornauga af stórveldum sem byggja sín áhrif á að geta gert einstaka hluta sundraðs samfélags sér handgengna og síðan deilt og drottnað á sundrungargrunni. En meira um það síðar.

Það sem mér þykir stórkostlegast er sú tilhugsun að baráttuhreyfing sé reiðubúin að endurskoða afstöðu sína frá grunni í ljósi reynslu og nýrra aðstæðna.

Það er gefandi að hlusta á fólk sem hefur sýnt það í verki að það er tilbúið að fórna frelsi sínu í þágu mannréttindabaráttu. Það á við um þessar tvær konur sem töluðu til okkar á fundinum í Iðnó.