Utanríkisráðherra, Írak og öryggi Íslands
Birtist í Fréttablaðinu 11.06.2003
Við birtingu féllu niður nokkrar setningar en hér birtist greinin óstytt.
Ég hef saknað þess nokkuð að utanríkisráðherra Íslands sé látinn svara fyrir þá ábyrgð sem ríkisstjórnin axlaði á vegum þjóðarinnar þegar hún studdi árásirnar á Írak og skipaði Íslendingum í hóp svokallaðra staðfastra þjóða að baki Bandaríkjamönnum og Bretum.
Nú er að koma fram í dagsljósið að miklar líkur eru á því að helstu forsvarsmenn bandarísku og bresku ríkisstjórnanna hafi beitt blekkingum um vopnabúnað Íraka til þess að geta fengið samþykki heima fyrir til að ráðast á Írak. Fyrir þá sem fylgst hafa grannt með Íraksmálinu kemur þetta ekki á óvart því þótt heimsfjölmiðlarnir hafi verið seinir að taka við sér hefur reglulega verið bent á ósannindatal sem einkum Bush Bandaríkjaforseti hefur orðið uppvís að í þessu máli.
Búktal frá Bush
Þetta varpar ljósi á hvers vegna hann og helstu stuðningsmenn hafa stöðugt breytt áherslum og gefið mismunandi skýringar á hernaðinum gegn Írak, einhvern tíma áttu það að vera tengslin við Al Quaida samtökin, þá gereyðingarvopn og síðast nauðsyn þess að losa írösku þjóðina við harðstjórann Hussein. Paul Wolfowitz aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna viðurkenndi hins vegar fyrir fáeinum dögum það sem hefur verið á flestra vitorði að raunveruleg ástæða væri ríkir olíuhagsmunir bandarískra fyrirtækja. Íslenska ríkisstjórnin hefur sveiflast með Bush í þessu máli og jafnan réttlætt árásina með tungutaki Bandaríkjaforseta. Þess vegna var einhvern tíma haft á orði að Halldór Ásgrímsson hljómaði eins og Bush í íslenskri þýðingu.
En nánar að ábyrgð íslensku ríkisstjórnarinnar. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði í viðtali við fréttastofu RÚV 3.júní sl. að á nýafstöðnum Nató fundi í Madrid hafi menn lítið rætt Íraksmálið: " Það hefur komið upp gagnrýni, þeirri gagnrýni hefur lítið verið svarað og þeir aðilar sem hafa mest verið gagnrýndir þeir svona hafa mikla þörf fyrir það að leggja þetta til hliðar og menn horfi sameiginlega fram á veginn og þar af leiðandi finnst mér að menn séu að líta til framtíðar hér en líti nánast lítið sem ekkert til baka." Þá spyr fréttamaður hvort afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar hafi eitthvað breyst eftir að fram komu efasemdir um gögnin sem árásin var réttlætt með. Utanríkisráðherra svarar: "Nei, okkar afstaða hefur ekkert breyst, hins vegar ef að það er rétt að menn hafa ekki lagt fram réttar upplýsingar þá er það alvarlegt í sjálfu sér en þetta mál hefur ekkert verið til umræðu hér. Menn viðurkenna þörfina á breytingu í Írak, það lá alveg fyrir að sú ríkisstjórn sem að þar var er ein versta ríkisstjórn sem að hefur verið í nokkru landi á jarðríki. Sjálfur hafði ég alltaf trú á því að það væru gereyðingarvopn í Írak og ég skil ekki af hverju Saddam Hussein vildi ekki vinna með aðilum til þess að upplýsa það ef hann hafði engin slík vopn undir höndum."
Sönnunarbyrðin ekki hjá árásaraðilanum
Með öðrum orðum, ráðist er á þjóð, fólk drepið, mannvirki eyðilögð og ómetanlegum menningarverðmætum tortímt. Það er hins vegar ekki árásaraðilans að sanna mál sitt heldur hins sem ráðist er á. Síðan þegar í ljós kemur að málatilbúnaðurinn var meira og minna byggður á lygum þá er okkur sagt að gleyma því sem liðið er og horfa sameiginlega fram á veginn. Og eins og menn heyra og sjá þegar utanríkisráðherra Íslands tjáir sig um málið þá tekur málflutningur hans ætíð samsvarandi breytingum og málflutningur Bandaríkjamanna. Nú er það harðstjórinn Saddam sem var verið að losa Íraka við þótt sjálfur hafi hann alltaf haft "trú" á því að Írakar hefðu gereyðingarvopn undir höndum.
Framsóknarmennirnir Halldór Ásgrímsson og Hjálmar Árnason hafa gengið mislangt í því að tengja fylgispekt Íslendinga við Bandaríkjamenn í Íraksmálinu við viðræður um framtíð Bandaríkjahers hér á landi. Hjálmar sagði beint út í viðtali við Fréttastofu Sjónvarps 4. júní að "samningsstaða okkar væri allt önnur í dag og þyrfti ekki að spyrja að leikslokum" ef við hefðum tekið okkur út af lista hinna "staðföstu". Halldór er greinilega feiminn við þessa yfirlýsingu en segir þó , "við höfum oft og tíðum sýnt Bandaríkjamönnum skilning og það er eitthvað sem við sjáum ekkert eftir. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að Bandaríkjamenn sýni okkur líka skilning en ég vil á engan hátt blanda þessu saman." (Morgunbl.6.júní).
Fyrst og fremst varnarmál segir ríkisstjórnin
Auðvitað er ástæða til að hafa áhyggjur af atvinnumálum á Suðurnesjum þegar herinn dregur úr starfsemi eða hverfur af landi brott. En alla vega í orði kveðnu vill ríkisstjórnin þó ekki blanda atvinnumálum við hugsanlegan samdrátt í hernaðarumsvifum Bandaríkjanna hér á landi. Í áður ívitnuðu Morgunblaðsviðtali segir Halldór Ásgrímsson: "Þetta er fyrst og fremst öryggis- og varnarmál en ekki atvinnumál" (sjá einnig Fréttabl.6.júní).
Lítum á málin frá þessu sjónarhorni. Utanríkisráðherra heldur því fram að fráleitt sé að flytja bandarískar orustuþotur frá Keflavík því þörf sé á þeim fyrir loftvarnir Íslands. AFP fréttastofan hefur hins vegar eftir Bush Bandaríkjaforseta að "heimurinn sé að breytast" og að þörf sé á herþotunum annars staðar. Gæti ekki verið nokkuð til í því? Bandaríkjamenn hafa haft hér orustuþotur til að fylgjast með langdrægum flugvélum Sovétmanna frá Kolaskaganum og væntanlega einnig til að bregðast við árásum þeirra ef til kæmi. Þessum vélum hefur jafnt og þétt verið fækkað í samræmi við breytta heimsmynd.
En spurningin sem Halldór Ásgrímsson þarf að svara er þessi: Óttast hann loftárásir á Ísland og ef svo er, af hálfu hverra? Getur verið að utanríkisráðherrann sé á algerum villigötum og að svo kunni að vera að Íslendingum stafi mest hætta af fylgispekt sinni við Bandaríkjastjórn og vafasamt heimsvaldabrölt hennar? Getur verið að bestu vörnina sé að finna í góðum og heiðvirðum málstað í alþjóðamálum í stað þess að fylgja í gegnum þykkt og þunnt heimsveldi í vígahug? Getur verið að þegar allt kemur til alls sé öryggi Íslendinga best tryggt með því að bandarískur her hverfi af landi brott?