UTANÞINGSSTJÓRN: KRAFA UM FORRÆÐISHYGGJU
Nú er talað um utanþingsstjórn því „stjórnmálastéttin" hafi brugðist. Svo er að skilja að ef við losnum við „þrasið" í stjórnmálastéttinni" og ef við aðeins finnum nokkra ærlega, faglega þenkjandi einstaklinga þá sé hægt að kippa öllu í liðinn. Halda menn að þetta sé svona?
Mér finnst þetta vera varsöm hugsun því hún er eins ófrjó og eins ólýðræðisleg og hugsast getur! Verkefnið er að setja fram raunhæfar lausnir, ræða þær opið og lýðræðislega og koma þeim í framkvæmd. Verkefnið er jafnframt að gera samfélagið opnara, gagnsærra og lýðræðislegra.
Þess vegna skjóta skökku við hugmyndir um að loka okkur inni og fela okkur forsjá „hins menntaða einvalds" eins og lagt er til.
Þá verð ég að segja að mér finnast fráleitar alhæfingar um „stjórnmálastéttina" . Stjórnmálamenn hafa fylgt mismunandi stefnu og lagt til mismunandi lausnir. Það væri vissulega til bóta ef fólk úr ólíkum stjórnmálaflokkum gerði meira af því að ræða saman á lausnamiðaðan hátt. Þá yrði margt auðleysanlegra. Í þessum skilningi geta stjórnmálaflokkar verið mönnum haft á hugann. En staðreyndin er nú samt sú að þetta gera stjórnmálamenn oft - og eftir því sem losnar um forrræðishyggjuna og mönnum verða tamari lýðræðisleg vinnubrögð, þá gerist þetta oftar. Krafa um utanþingsstjórn er hins vegar ákall um forræðishyggju.
En hverja skyldu menn vilja fá að stjórnvelinum? Bara einhverja sem forsetanum dettur í hug? Viljum við ekki frekar fá að velja fólkið sjálf í kosningum?
Á þetta að vera fólk sem vill einkavæðingu eða er á móti henni, á þetta að vera fólk sem styður kvótakerfið eða vill uppræta það, er með stóriðjustefnu og vill selja auðlindirnar, eða vill fjölbreytni í atvinnusköpun og halda í auðlindirnar, vill launajöfnuð eða vill að markaðurinn ráði, vill fara í ESB eða er því andsnúið, með Nató eða á móti, með flatri niðurfærslu skulda eða á móti? - Fólk úr háskólanum? Þeir sem vilja að prófessorsstöður gangi kaupum og sölum eða hinir sem eru því andvígir? Hæstaréttardómarar? Kennarar, hvaða kennarar? Seðlabankastjóri - kannski sá norski? Kannski biskupinn? Eða prófessorar í siðfræði? Kannski allt þetta fólk? En þá þarf að velja það í kosningum. Annað er stæk forræðishyggja - úr grárri forneskju.
Síðan langar mig til að trúa lesendum fyrir einu. Á Alþingi situr ósköp venjulegt fólk. Fólk sem skuldar og á margt í erfiðleikum með að borga af lánunum sínum, fólk sem þarf að fara til læknis, fólk sem er með börn í skóla og á aldraða foreldra. „Stjórnmálastétt" innmúruð í samtryggingu? Ekki hef ég orðið þess var.
Þessa dagana hafa verið kallaðir saman að borði fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, fjármálastofnana, Hagsmunsamtaka heimilanna, og talsmanna samtaka á vinnumarkaði til að leggja í púkkið um lausn á skuldavandanum. Í ljósi þessa er ástæða til að spyrja hvers vegna menn reyna ekki að hafa áhrif á framvinduna með hugmyndum og eftirfylgni í stað þess að blása á ríkisstjórnina og krefjast utanþingsstjórnar.