Fara í efni

ÚTHVÍLDIR RÁÐHERRAR MÆTA TIL VINNU

Ríkisstjórn úr sumarfríi
Ríkisstjórn úr sumarfríi

Þá er tekið að halla sumri og fólk umvörpum að koma úr sumarfríi. Ráðherranir mæta til vinnu hver á fætur öðrum , úthvíldir og geislandi af sól og sumri. Eftir á að hyggja er það skiljanlegt að þeir hafi viljað seinka lögbundinni þingsetningu og lögbundinni framlagningu fjárlaga. Hefði verið farið að lögum og enginn frestur fengist má ætla að lítið hefði orðið úr fríum ráðherra.
Fróðlegt verður að sjá hvað komið hefur út úr vinnu sumarsins varðandi niðurfærslu á höfuðstól skulda. En ég verð að játa að hinn jákvæði yfirlýsingatónn kosningavorsins er orðinn heldur holari eftir að tilkynnt var um niðurskurð á vaxtabótum um helming hjá fjölda skuldugra lágtekjuheimila. Félagsmálaráðherra kom fram í fréttum til að segja að þessu verði að mæta; að sjálfsögðu verði að finna mótvægisaðgerðir gegn niðurskurði ríkisstjórnarinnar á stuðningi við skuldug heimili.
Ekki er lengur til að dreifa sköttum sem ríkisstjórnin frábað ríkissjóði á vorþingi. En úthvíld áhöfn þjóðarskútunnar hlýtur að luma á ráðum sem við hin komum ekki auga á.