ÚTIFUNDUR Á LÆKJARTORGI GEGN OFBELDI Í PALESTÍNU
04.03.2008
Á morgun, miðvikudag klukkan 12:15, er boðað til útifundar á Lækjartorgi í Reykjavík til að mótmæla hernaðarofbeldinu á Gaza svæðinu í Palestínu. Yfirskrift fundarins er: Stöðvum fjöldamorðin og rjúfum umsátrið á Gaza.
Á Gaza svæðinu hafa á örfáum dögum á annað hundrað manns verið myrtir, þar af tugir barna. Til viðbótar hafa mörg hundruð manns særst í árásum ísraelska hersins. Forsætisráherra Íslands sagði á Alþingi í gær að Íslendingar yrðu að átta sig á því að þeir væru þess ekki umkomnir að stöðva ófriðinn. Þessi er uppgjafartónn er okkur ekki sæmandi. Öllu fólki um heiminn allan ber siðferðileg skylda til að láta frá sér heyra á eins kröftugan hátt og hverjum og einum er mögulegt. Ég hvet alla, sem þess eiga nokkurn kost, að mæta á útifundinn á Lækjartorginu og sýna þannig vilja sinn í verki gegn mannréttindabrotunum á Gaza svæðinu. Þetta er það minnsta sem við getum gert - og hvernig sem viðrar. Með því að mæta á fundinn fylkjum við okkur að baki kröfunni á hendur íslenskum stjórnvöldum um að þau mótmæli ofbeldinu kröftuglega fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.