Fara í efni

ÚTLENDINGANEFND LEYSI LÝÐRÆÐISVANDANN?

Frettablaðið
Frettablaðið

Birtist í Fréttablaðinu 22.02.18.
Þegar borgaryfirvöld tóku tilneydd að velta því fyrir sér hvernig brjóta mætti niður lýðræðislegan vilja Reykvíkinga til að halda innanlandsfluginu í Vatnsmýrinni í Reykjavík varð niðurstaða sú að skipa nefnd til að finna nýja staðsetningu fyrir flugvöllinn - en þó á höfuðborgarsvæðinu. Að sjálfsögðu ætti að virða vilja Reykvíkinga um flugvöll í Reykjavík! Hann ætti bara ekki að þvælast fyrir fasteignabröskurum sem vildu byggja á verðmætasta byggingalandinu svo vísað sé í nýlegan leiðara Fréttablaðsins.
Þar var líka talað um hnúta sem þyrfti að leysa og skotgrafir sem þyrfti að komast upp úr. Og hvernig? Með því að fá nefnd útlendinga sem hefði skýrt umboð: „Stjórnmálamenn verða að una niðurstöðunum", sagði leiðarahöfundur.

Staðráðin að virða ekki meirihlutaviljann

Allt orkar þetta nú heldur tvímælis. Ítrekaðar skoðanakannanir á mörgum undanförnum árum hafa bent til þess að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna - einnig yfirgnæfandi meirihluti Reykjavíkinga - vill hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Hvaða hnút þarf þá að höggva á?
Hnúturinn sem þarf að leysa er sá vandi sem lýðræðið skapar borgaryfirvöldum í þessu máli. Löngu er nefnilega orðið ljóst að meirihlutaviljann á ekki að virða.

Illa gert gagnvart Rögnu

Alltaf finnst mér það heldur illa gert gagnvart þeirri ágætu konu, Rögnu Árnadóttur, að kenna við hennar nafn rannsóknarnefnd sem hún var í forsvari fyrir og kom fram með einhverja alvafasömustu tillögu sem fram hefur komið í þessu máli. Nefndinni var falið að kanna hvað væri skásti kosturinn fyrir flugvöll ínnan höfuðborgarsvæðisins ef flugvöllurinn yrði fluttur úr Vatnsmýrinni - nota bene ekki hver væri besti kosturinn fyrir innanlandsflugvöll, heldur hvar á höfuðborgarsvæðinu mætti koma flugvelli fyrir ef hann yrði hrakinn úr Vatnsmýrinni. Þannig varð til hugmyndin um Hvassahraun.

Vilja loka málinu þvert á almannavilja

En til þess að reka smiðshöggið á þessa ráðagerð er svo að skilja að ríkisstjórnin hyggist nú fá útlenda menn til að koma með tillöguna og hafi leiðarahöfundur Fréttablaðsins sitt fram yrði málinu þar með lokað. Una verði niðurstöðum aðkeyptra málaliða!
En það eru ekki bara braskararnir sem myndu hrósa sigri.

Hvernig flugfélögin vilja ráðstafa skattfé

Talsmenn flugfélaganna segja að þeir geti vel hugsað sér að láta skattborgara landsins kosta nýjan flugvöll í Hvassahrauni með öllu tilheyrandi. Fjármunum sé betur varið þannig en sóa þeim í menntun barnanna og umönnun aldraðra. Svo sé Reykjanesið varla til annars en að slétta það og malbika.
Þarna held ég nú samt að einhverjir eigi eftir að rísa upp. Reykjanesið er nefnilega með fegurstu landsvæðum Íslands. Hver hefur ekki ekið með ferðamenn frá Keflavíkurflugvelli og orðið vitni að hrifningu þeirra af úfnu hrauninu sem ekið er um.

Förum vel með landið

Við eigum að fara vel með landið okkar og varast í lengstu lög að ráðast í óafturkræf landspjöll. Síðan er náttúrlega hitt að svæðið umhverfis Keflavíkurflugvöll - Miðnesheiðin - býður upp á talsverða möguleika á útvíkkun og þá einnig fyrir innanlandsflugið ef í harðbakkann slær.

Vatnsmýrin og Manhattan

Og síðan er það braskið. Ég hef áður vakið á því athygli að á ólíklegustu stöðum hafa menn staðist áhlaup byggingabraskara eða hvað skyldi leiðarahöfundur Fréttablaðsins segja um verðmæti byggingalandsins í Hyde Park í London eða Central Park á Manhattan í New York.
Seint myndu íbúar þessara borga sætta sig við að „útlendinganefnd" svipti þá valdi yfir þessum opnu svæðum sem gráðugustu braskarar jarðkringlunnar hafa lengi rennt girndaraugum til.