Fara í efni

ÚTRÁS ÓLAFSFELLS?


“Versti eigandi að fjölmiðli er ríkið”,
sagði Björgólfur Guðmundsson  stórefnamaður, á fréttamannafundi með forsvarsmönnum RÚV ohf. síðastliðinn föstudag. Tilefni þess að Björgólfur lét þessi orð falla um almannaútvarp og eiganda þess, hið illa ríki, var fyrirheit hans um að láta upphæð á bilinu 25-50 milljónir renna árlega til íslenskrar dagskrárgerðar en RÚV ohf kæmi þar á móti með samsvarandi upphæð. Alls yrðu þetta 2 - 3 hundruð milljónir næstu þrjú árin.
Fréttastofum RÚV hefði verið í lófa lagið að snúa frásögninni við og segja að RÚV ohf ætlaði að láta fyrrnefnda peningaupphæð renna til dagskrárgerðar í samkrulli við stórefnamanninn Björgólf Guðmundsson.  Það var ekki gert heldur dæminu stillt þannig upp að Björgólfur væri í reynd að styrkja RÚV ohf.
Við þetta vakna ýmsar spurningar. Í fyrsta lagi hvort þetta standist lög um tekjustofna Ríkisútvarpsins ohf. Í öðru lagi vakna spurningar um áhrif peningamanna á dagskrárgerð RÚV ohf þótt forsvarsmenn fyrirtækisins reyndu að sverja allt slíkt af sér í fréttatímum á föstudag. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér framtíðarþróun á fjölmiðlamarkaði.
Þegar illu heilli var ákveðið að gera RÚV að hlutafélagi var því spáð á þessari síðu að hugsanlega rynni sá dagur upp að RÚV og Morgunblaðið ættu eftir að renna saman í eitt, alla vega stórefla samstarf sín í milli. Í nafni hverra skyldi fréttatilkynningin um fréttamannafundinn sl. föstudag hafa verið send? Hún var send í nafni RÚV og Ólafsfells. Hver skyldi vera einn stærsti eignaraðili að Morgunblaðinu? Svar: Ólafsfell.

Síðan er það níðið um ríkið. Hvað er ríkið? Í lýðræðisþjóðfélagi er ríkið umgjörð sem þjóðir hafa komið sér upp til að koma sameiginlegum vilja í framkvæmd. Í krafti þessarar hugsunar starfar Alþingi og kjörnir fulltrúar almennings í nefndum og ráðum sem fjalla um almannahag. Á þessum grunni var menningarstofnunin Ríkisútvarpið reist á sínum tíma.Vilja menn heldur vald peninganna og handhafa þeirra? Er auðvaldið betra en lýðræðið? Svari hver fyrir sig.

Ein fjölmargra greina sem ég skrifaði um skylt efni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/svelt-og-selt

Frétt í Sjónvarpinu sl. föstudag : http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338482/9