Fara í efni

VAKTI ATHYGLI Á MANNRÉTTINDABROTUM Í TYRKLANDI

Ástæða er til að vekja á athygli á ákalli Jódísar Skúladóttur alþingismanns til þings og þjóðar um að láta frá sér heyra og mótmæla nýföllnum fangelsisdómum í Tyrklandi yfir mörgu helsta foystufólki Kúrda.
Jódís kvaddi sér hljóðs á þingi í síðustu viku og sagði meðal annars:

Í gær féll dómur í Tyrklandi í hinu svokallaða Kobani-máli þar sem 108 einstaklingar hafa beðið niðurstöðu árum saman. Meðal þeirra sakfelldu er fyrrverandi leiðtogi HDP lýðræðisflokksins sem fékk 42 ára dóm. Árið 2014 réðust ISIS-liðar á bæinn Kobani í Sýrlandi, nálægt tyrknesku landamærunum. Yfirvöld í Tyrklandi lokuðu landamærum sínum fyrir þjáðu og slösuðu fólki sem flúði ástandið á sama tíma og ISIS-liðum var hleypt í gegn og gefinn forgangur að heilbrigðisþjónustu. Í kjölfarið brutust út mótmæli þar sem yfir 40 létu lífið en lögreglan beitti mikilli hörku gegn mótmælendum.

Venju samkvæmt er allt illt í Tyrklandi sagt Kúrdum að kenna og þá einnig mótmæli og hrðyjuverk sem að þeim sjálfum hafa beinst! Kobani réttarhöldin hafa staðið yfir árum saman og hafa verið notuð sem átylla til að þrengja að pólitísku starfi Kúrda í Tyrklandi.

Í dómsuppkvaðningunni síðastliðinn fimmtudag, sem Jódís vék að, hlutu 24 einstaklingar fanglsisdóma frá 9 árum og upp í 42 og hálft ár.

Þetta eru skilaboð ætluð öllum þeim sem beita sér fyrir réttindum Kúrda í Tyrklandi um að gæta að sér, helst láta af öllu pólitísku starfi en jafnframt er þetta áminning til umheimsins um stjórnarfarið í Tyrklandi.
Jódís Skúladóttir á þakkir skilið fyrir að vekja athygli á þessari svívirðu og hvetja til þess að þessum augljósu mannréttindabrotum verði mótmælt.

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.