Fara í efni

VALGERÐUR SVERRISDÓTTIR SAKAR PÓLITÍSKA ANDSTÆÐINGA RANGLEGA UM FALSANIR

Birtist í Morgunblaðinu 17.03.06.
Laugardaginn hinn 13. mars bar Valgerður Sverrisdóttir, viðskipta- og iðnaðarráðherra,  undirritaðan og aðra þingmenn VG alvarlegum sökum. Hún ásakaði okkur um að hafa falsað ummæli hennar. Ráðherrann sagðist byggja ásakanir sínar á sönnunum og gerði því skóna að þingmenn VG kynnu jafnvel að „safna í fæl fölsuðum ummælum.“
Orðrétt sagði Valgerður Sverrisdóttir á Alþingi um þetta efni: „… En það sem ég ætla að segja hér fyrst og fremst er — af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hóf þessa umræðu og vitnaði í orð ákveðins manns í viðskiptalífinu — að það er ekkert að marka það sem þessir þingmenn Vinstri grænna koma hér fram með og vitna í ummæli manna og þingmanna og ráðherra. Ég er með sönnun þess að þeir hafa reynt að falsa það sem ég hef sagt. Það er þannig að ég kem í Kastljósþátt fyrir alllöngu þegar undirrituð var viljayfirlýsing vegna kaupa ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Þeir hafa tvisvar sinnum sagt rangt frá því sem ég sagði. Þeir eru með þetta í fæl þannig að ég veit ekkert nema þeir safni bara í fæl fölsuðum ummælum. Þegar ég er spurð hvort þetta sé fyrsta skrefið í einkavæðingu Landsvirkjunar segja þeir að ég hafi sagt: Já, það eru uppi áform um að breyta þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag o.s.frv. Ég er búin að fá þennan þátt og er búin að horfa á þetta og ég segi: Ja, ég er að hugsa mig um og segi svo: Það eru uppi áform um að breyta síðan þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag. Þetta er hikorð, ja, og síðan held ég áfram og segi: Það eru uppi áform um þetta. Þannig að það er búið að segja hér tvisvar sinnum að ég hafi sagt já, og það er falsað. Þeir eru með þetta í fæl og ég fór til hv. þingmanns til að vita hvort þetta væri bein útskrift af Fjölmiðlavaktinni. Nei, það er búið að pikka þetta upp aftur og breyta því. Þetta eru Vinstri grænir á Alþingi.“

Ásakanir um skjalafals

Það er alvarlegt að saka menn um fals eins og hér er gert. Þessi kostulegi málatilbúnaður ráðherrans er reyndar kapituli út af fyrir sig því ja eða já úr munni Valgerðar Sverrisdóttur í umræddu viðtali skiptir engum sköpum. Deilur snérust um efnisinnihald ummæla ráðherrans, hvort til stæði að opna á einkavæðingu raforkugeirans. Hinn 23. febrúar á síðasta ári reyndi iðnaðarráðherra að bera það af sér á Alþingi að hún hefði gefið það afdráttarlaust út að ákveðið hefði verið að gera Landsvirkjun að hlutafélagi. Það voru þingmenn VG sem höfðu þá á Alþingi vakið máls á ummælum hennar í fjölmiðlum. Ráðherra brást sem endranær ókvæða við og sagði að erfitt væri að tala til þeirra „sem heyra ekki það sem maður segir“. Hún hefði aðeins sagt að það „gæti verið“ að fyrirtækinu yrði breytt í hlutafélag „sem opnaði á möguleika á að nýir aðilar komi að rekstri fyrirtækisins, þá eru það ákveðin skilaboð. Þetta getur komið til greina.“ Þessi ummæli urðu þess valdandi að farið var að kanna hvað ráðherra hefði áður sagt um þetta efni opinberlega.
Í ljós kom að fjölmiðlar höfðu ekki skilið yfirlýsingar ráðherrans í því samhengi sem það nú  var sett fram heldur á nákvæmlega sama hátt og þingmenn VG.
Þannig hafði eftirfarandi frásögn verið í forsíðufrétt Morgunblaðsins föstudaginn 18. febrúar 2005: „Lífeyrissjóðirnir kunna hugsanlega að verða framtíðareigendur sameinaðs fyrirtækis Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins að sögn Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra. Viljayfirlýsing um að ríkið leysi til sín eignarhluta Reykjavíkur og Akureyrar var undirrituð í gær og mun ríkið eignast fyrirtækið að fullu um næstu áramót, takist að ná samkomulagi um verð hlutar sveitarfélaganna tveggja. Áform eru uppi um að sameinuðu fyrirtæki verði breytt í hlutafélag eftir þrjú ár. „Á þeim tímapunkti verður að meta hvenær er rétt að opna fyrirtækið fyrir nýjum eigendum,“ segir Valgerður. „Það er búið að móta þá stefnu að til þess muni koma. Það er ekki okkar framtíðarsýn að ríkið eitt muni eiga þetta fyrirtæki til framtíðar.“ Hún sagði ekki búið að móta hugmyndir um framtíðarsamsetningu hluthafa, „en því er ekki að leyna að t.d. lífeyrissjóðir hafa verið nefndir í því sambandi.“
Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins fimmtudaginn 17. febrúar 2005, viðraði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra viðhorf sín í hinu margumrædda ja eða já viðtali, sem hún segir mig hafa „pikkað upp“ og „breytt“. Staðreyndin er sú að ég fékk viðtalið í gegnum upplýsingaþjónustu Alþingis og naut aðstoðar Alþingis. Ásökun Valgerðar Sverrisdóttur um að ég hafi falsað viðtalið jafngildir ásökun um skjalafals sem er saknæmt athæfi.
Í þessu viðtali í Kastljósi Sjónvarpsins kemur skýrt fram hver er ásetningur stjórnvalda um framtíð Landsvirkjunar: „Fréttamaður: En þessi viljayfirlýsing, sem var undirrituð í dag, er þetta eins og er talað er um fyrsta skrefið í átt að einkavæðingu Landsvirkjunar?
Valgerður SverrisdóttirJá, það eru uppi áform um það, að síðan breyta þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag, hugsanlega árið 2008. Þá erum við komin í gegnum Kárahnjúkauppbygginguna og eftir að fyrirtækið er orðið hlutafélag að þá er ekki ólíklegt og reyndar áform uppi um það að aðrir aðilar geti komið að fyrirtækinu. Þetta er náttúrlega gríðarlega verðmætt fyrirtæki. Vonandi verður ekki síður verðmætt á þessum tíma og það er engin sérstök ástæða til þess að ríkið haldi eitt utan um það.
Fréttamaður: Sérðu fyrir þér hverjum verði boðið að kaupa hluti í þessu hlutafélagi sem þá verður stofnað um Landsvirkjun? Getur almenningur keypt eða verður þetta boðið út einhvern veginn öðruvísi?
Valgerður: Við erum náttúrlega bara ekki komin svo langt. Þetta er svo langt frammi í framtíðinni, en almennt hefur það verið þannig þegar ríkið hefur verið að selja eignir sínar að þá hefur það verið gert allt mjög faglega, vil ég halda fram. Og það hefur svo sem gengið ágætlega, það sem við höfum einkavætt fram að þessu.

Ráðherra hefur rangt við

Í fréttum Ríkissjónvarpsins fyrr sama kvöld viðurkenndi ráðherrann að vissulega gætu fjárfestar á markaði tekið arð út úr fyrirtækinu og að ekki væri hægt að útiloka að eignarhaldið yrði erlent, en studdi áform sín um einkavæðingu með eftirfarandi ummælum: „Ég held að við séum nú  svona almennt séð orðin  þeirrar skoðunar, Íslendingar, að ríkisreksturinn sé ekki endilega besta formið.“
Hér kemur fram svo ekki er um að villast að Valgerður Sverrisdóttir hefur lýst því á afdráttarlausan hátt að áform séu uppi um að gera Landsvirkjun að hlutafélagi, taka það úr ríkisrekstri og fela það í hendur öðrum aðilum, hugsanlega fjárfestum á borð við lífeyrissjóði. Ég gæti hæglega vitnað til fleiri ummæla ráðherrans sem öll eru á sama veg en læt hér staðar numið – að sinni.
Hvers vegna sé ég mig knúinn til að tína til þessi ummæli Valgerðar Sverrisdóttur frá síðasta ári? Það er vegna þess að hún hefur leyft sér að saka mig og aðra þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um að falsa ummæli sín. Ég hef nú sett fram gögn á Alþingi sem sýna ótvírætt að ásakanir ráðherrans byggja á ósannindum. Hvorki ráðherrar né alþingismenn, né nokkur annar ef því er að skipta, eiga að komast upp með að ljúga fölsunum upp á pólitíska andstæðinga sína. Að slíku hefur Valgerður Sverrisdóttir nú orðið uppvís.