VALKVÆTT ÆVIKVÖLD - HVER ER STEFNAN?
Birtist I Morgunblaðinu 23.04.18.
Þarfir og óskir aldraðs fólks eru engan veginn einsleitar enda heilsufar, félagsleg staða og afstaða hvers og eins mismunandi.
Háaldraður einstaklingur, sem býr í nánd við fjölskyldu og vini, með góðan samfélagslegan stuðning við þrif og aðhlynningu, kýs margur hver að búa heima hjá sér eins langt fram á ævikvöldið og unnt er.
Einmana manneskja, með lítinn félagslegan stuðning og lítinn stuðning frá sveitarfélagi sínu, kann að una sínum hag best á stofnun. Einmanakenndin þarf þó engan veginn að skýra áhuga fólks á að komast í nána snertingu við aldursfélaga sína undir sama þaki. Sumir njóta sín einfaldlega í margmenni.
Vilja vera óháð fjölskyldu
Svo eru þau sem vilja ekki vera upp á börn sín eða aðra í fjölskyldu komin. Á ráðstefnu sem Sjúkraliðafélag Íslands efndi til vorið 2016, um málefni aldraðs fólks, minnist ég þess að heyra vitnað í gamla konu hollenska, sem sagðist fyrir alla muni vilja komast á öldrunarstofnun og það sem fyrst því ekki óskaði hún eftir því að vera samvistum við sína nánustu! Síðan er það hitt að margt aldrað fólk vill ekki verða byrði á fjölskyldu sinni jafnvel þótt samkomulagið sé eins og best verður á kosið.
Þetta er nauðsynlegur formáli svo enginn þurfi að fara í grafgötur um að undirritaður gerir sér grein fyrir því að heimur aldraðs fólks er ekki allur á einn veg og þarfir og óskir mismunandi.
Sjúkraliðafélag Íslands spyr um réttindi aldraðra
Þau úrræði sem öldruðum er boðið upp á eru líka mismunandi. Þar hafa tískusveiflur komið til sögunnar. Einu sinni átti elliheimilið að vera fyrirheitna land allra aldraðra. Síðan átti að gera öldruðu fólki kost á að vera heima sem lengst með heimaþjónustu, heimahjúkrun ef þörf væri á henni og aðhlynningu og aðstoð í samræmi við þarfir fólks - og réttindi. Í þriðja lagi kom fram sú hugsun og er hún mér mest að skapi, að öldruðu fólki yrði gert kleift að velja um þessa tvo kosti. Ég hef staðið í þeirri trú að þetta væri sú stefna sem orðið hefði ofan á enda rímar hún best við mannréttindi.
Á málstefnu sem Sjúkraliðafélag Íslands efnir til fimmtudaginn 26. apríl næstkomandi er spurt um stefnu í málefnum aldraðra og er sjónarhóllinn sem horft er frá í þessum anda, réttindi aldraðra.
Þarna mæta stjórnmálamenn og fagfólk, spurt er um stefnu, hver hún sé, og ef hún á annað borð er fyrir hendi, hvort henni sé framfylgt.
Í maímánuði á síðasta ári var að mínu frumkvæði efnt til opins borgarafundar í Iðnó um heimaþjónustu aldraðra. Þar kom skýrt fram að alvarlegar brotalamir eru á þessari þjónustu. Enda þótt starfsfólkið sem þjónustuna veitir sé afbragðsgott þá er það einfaldlega of fátt og álagið fyrir bragðið of mikið.
Böðun einu sinni í viku!
Á Iðnófundinum var nefnt dæmi um einstakling á tíræðisaldri sem vildi búa heima og hafði til þess getu með tiltölulega litlum stuðningi. Viðkomandi þurfti einvörðungu aðstoð við böðun. Þess var farið á leit við velferðarsvið borgarinnar að slík aðstoð yrði veitt tvisvar, helst þrisvar í viku. Annað hafði ekki verið beðið um. Fram kom að slík aðstoð yrði ekki veitt, reglan væri skýr og afdráttarlaus, aldraður einstaklingur fengi aðstoð við böðun einu sinni í viku að hámarki!
Í kjölfar fundarins ritaði ég velferðarsviði Reykjavíkurborgar bréf og spurðist fyrir um það hvernig þessi heimaaðstoð væri að þróast og hvort þjónustan stæði til bóta. Ég fékk svar frá hinni faglegu hlið en ekki hinni pólitísku þótt beðið væri um hvort tveggja.
Verkefnið vanrækt
Fram kom að það væri mat velferðarsviðs að ekki væri nægilega margt fólk að sinna verkefninu miðað við umfang þess og fjölgun aldraðra. Með öðrum orðum, þróunin stefnir niður á við.
Með öðrum orðum, margrómað valkvætt ævikvöld er einfaldlega ekki fyrir hendi hjá því fólki sem um langt árabil hefur verið lofað slíku í ellinni. Annars vegar er ekki nægilega vel búið að stofnunum aldraðra af hálfu fjárveitingavaldsins - og hefur svo lengi verið með undantekningum þó - og þjónusta við aldrað fólk sem býr heima er langt frá því að vera fullnægjandi og stefnir niður á við. Þess ber þó að geta að þeir aðilar sem koma að þessum málum, ríki og borg, heimaþjónusta og heimahjúkrun hafa í seinni tíð góðu heilli reynt að samhæfa sig betur. En það breytir því ekki að kerfið rís ekki undir álaginu án frekari fjárveitinga.
Hvað segja stjórnmálaflokkarnir?
Fyrrnefnd ráðstefna Sjúkraliðafélags Íslands næstkomandi fimmtudag er verðugt framtak og verður vonandi til þess að málefnið fái athygli fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.