VALKYRJURNAR OG ERFIÐU ÁKVARÐANIRNAR
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að í burðarliðnum sé ríkisstjórn sem muni þora að taka erfiðar ákvarðanir.
Við bíðum spennt að vita hverjar þær erfiðu ákvarðanir eru og hvers vegna þær eru taldar vera erfiðar.
Ég leyfi mér að nefna eitt dæmi um ákvörðun sem hefur reynst ríkisstjórnum svo erfið að þær hafa allar heykst á að hafast nokkuð að.
Hér er dæmið: Óumdeilt er að spilavíti - hvort sem er í spilasölum eða á netsíðum - valda fjölmörgum einstaklingum og fjölskyldum bæði sorg og erfiðleikum. Fram hefur komið í könnunum að meirihluti þjóðarinnar er andvígur því að fjárhættuspil séu leyfð. Engu að síður gera stjórnvöld ekkert í málinu. Skýringin er augljóslega sú að Háskóli Íslands, Rauði krossinn og Landsbjörg hagnast á þessum rekstri og reynist þrýstingur frá þessum stofnunum svo mikill og ítök þeirra í valdastofnunum svo mikil að enginn treystir sér til að hagga við þeim. Og ekki nóg með það nú vill íþróttahreyfingin fá hlutdeild í sukkinu með því að fá heimild til að reka spilavíti á netinu. Þarna er mikla fjármuni að hafa enda «vandfundin billegri leið til að hafa fé af fólki» að mati Morgunblaðsins í frábærum leiðaraskrifum í vikunni.
Svo stórt mál er þetta, svo ákaft er ákallið annars vegar frá almannasamtökum með Samtök áhugafólks um spilafíkn í fararbroddi og hins vegar þrýstingurinn frá þeim sem græða á spilafíkninni að stjórnvöld hreinlega geta ekki látið endalaust reka á reiðanum. Þess vegna er spurt: Hvort þætti «valkyrjunum» auðveldara eða erfiðara eftir atvikum, að hunsa gróðaöflin eða fórnarlömb þeirra? Hingað til hefur auðvelda leiðin verið að hunsa fórnarlömbin og fara að vilja þeirra sem hagnast á ógæfunni. Ef það er rétt hljóta valkyrjurnar að snúa þessu við og taka stöðu með fórnarlömbunum og þá gegn HÍ, Rauða krossinum og Landsbjörg.
Athyglisverð umfjöllun hefur verið í Morgunblaðinu undanfarna daga um geigvænlega þróun fjárhættuspila hér á landi samanber það sem fram kemur í blaðaúrklippu úr Morgunblaðinu hér að ofan og í kjölfarið í leiðaranum hér að neðan. Þá er einnig fjallað um það í Morgunblaðinu að bankastofnunin Indó hafi riðið á vaðið með takmarkanir á netspilun. Það er nokkuð sem vert er nánari skoðunar. Þarna stígur bankastofnun skref sem stjórnvöld hefðu fyrir löngu átt að hafa frumkvæði að; stjórnvöld hefðu átt að hvetja til samráðs fjármálastofnana um ábyrgar ráðstafanir til varnar samfélaginu gegn óprúttnum gróðaöflum.
Morgunblaðið á þakkir skildar fyrir umfjöllun í blaðinu að undaförnu, svo og Alma Hafsteinsdóttir formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem Morgunblaðið leitaði til, að ógleymdum Indó banka.
Myndin af valkyrjunum, sem svo kalla sig, er tekin af mbl.is
------------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.