VARAR VIÐ PÓLITÍSKUM EYÐILEGGINGARÖFLUM
Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, sýnir veruleg tilþrif á netmðilum í dag þegar hann varar við því sem hann kallar pólitísk “eyðileggingaröfl”. Þetta væri varla í frásögur færandi á þessari heimasíðu væri það ekki fyrir þá sök að versta eyðileggingaraflið er að mati Hauks sá sem stýrir þessari heimsíðu.
Vandi Hauks er hins vegar sá að staðhæfingar hans eru allar ósannar. Og án þess að ég vilji fara að dæmi hans og gefa einkunn fyrir vinnubrögð, birti ég hér grein Hauks og svör mín. Í viðbrögðum við þessum skrifum hafa margir orðið til þess andmæla fullyrðingum Hauks Arnþórssonar því þær séu ósannar og ósanngjarnar.
Sjá hér frásögn vefsíðu DV:
Haukur sósíalisti varar fólk við „eyðileggingaraflinu“ Ögmundi – „Versti siðblindingi sem vinstri hreyfingin hefur átt“ – Ögmundur svarar
Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 17. mars 2020 11:00
Lesa nánar
Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, sósíalisti og frambjóðandi í formanns- og stjórnarkjöri Félags eldri borgara, fer ófögrum orðum um Ögmund Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmann Vinstri grænna í Facebookhópi Sósíalistaflokks Íslands í dag.
Tilefnið er grein Ögmundar um að hann vilji verðtrygginguna burt og tímabundna núll prósent vexti vegna efnahagsáhrifa kórónuveirunnar.
Haukur segir þetta skjóta skökku við hjá Ögmundi, þar sem Ögmundur sjálfur hafi staðið á bak við verðtrygginguna árið 1982:
„Þessi maður – Ögmundur Jónasson – er höfundur þeirrar tegundar verðtryggingarinnar sem hækkar höfuðstól lána og gerir almenning eignalausan. Það var árið 1982 sem hann barðist fyrir þessu og fékk framgengt. Þá var ég andstæðingur hans fyrirætlana og hef nánast alltaf verið það síðan,“
segir Haukur og sakar Ögmund um siðblindu:
„Hann er að mínu viti versti siðblindingi sem vinstri hreyfingin hefur átt (kannast aldrei við eigin verk – eins og t.d. skemmdarverkin gagnvart almenningi sem unnin voru 2009-2013 þegar hann var ráðherra (hann ber ábyrgð á því að um 10.000 manns missti heimili sín vegna verðtryggingarinnar) og hann fór svo frá stjórninni í lok stjórnartímabilsins til að sýnast saklaus) og lýðskrumari á sama plani og Sigmundur Davíð (væri til í að fara í kröfugöngu gegn verðtryggingu sem hækkaði höfuðstól – sem hann kom á sjálfur). Við þurfum að varast þennan mann. Hann er eyðileggingarafl.“
Hræsni um kvótann
Haukur tínir til dæmi um verk Ögmundar sem hann telur rökstyðja fullyrðingu sína:
„Sem dæmi um verk hans er að Vg hefur hindrað breytingar á kvótakerfinu alla tíð – og sveik almenning í því máli í ríkisstjórninni 2009-2013. Nú hamast Ögmundur gegn kvótakerfinu en ber sjálfur ábyrgð á því,“
segir Haukur, en Ögmundur og Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, hafa staðið fyrir baráttufundum um land allt undir yfirskriftinni Gerum Ísland heilt á ný – kvótann heim. Ekki er víst hvernig þessi gagnrýni Hauks fer í Gunnar Smára, en Haukur á sæti í framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins.
Þá segir Haukur að lokum:
„Vinstri“-menn sem hafa svikið hagsmuni almennings í 4 áratugi – geta ekki barið sér á brjóst núna og sagt: „Ég er nýr og betri maður“. Þeir hafa átt sitt tækifæri. Munum hvað ríkisstjórnin 2009-2013 gerði í kvótamálinu. Við megum ekki halla okkur að lukkuriddurum – enda þótt siðblindingar séu nánast alltaf sjarmerandi stjórnmálamenn. Því þá ekki að fá ó-sjarmerandi foringja eins og Sanders – bara ef hann er heiðarlegur !“
Allt rangt hjá Hauki
Ögmundur sagði í skriflegu svari við Eyjuna að allt væri þetta rangt hjá Hauki og tekur dæmi:
„Allt sem Haukur Arnþórsson heldur fram í þessu kostulega skrifi sínu er rangt.
- Lögin um verðtryggingu eru ekki samin af mér eins og Haukur heldur fram. Hann vísar langt áftur í tímann og er ég alveg tílbúinn að fara þangað aftur og þá ræða baráttu Sigutúnshópsins þar sem ég var framarlega að berjast gegn vaxtaokri. Og þegar ég kom til forystu í BSRB undir lok níunda áratugarins varð baráttan þar gegn háum raunvöxtum alltaf nánast mál málanna. Þetta er allt til skjalfest.
- Í byrjun hrunsins 2008 var haldinn krísufundur í Ráðherrabústaðnum þar sem ég mætti sem formaður BSRB sem ég var þá jafnframt þingmennsku. Þar lagði ég til að verðtryggingunni yrði kippt úr sambandi þegar í stað til að vernda heimili landsmanna. Þetta náði ekki fram að ganga vegna mjög harðrar andstöðu fjármálakerfisins og á þessum fundi harðrar andstöðu ASÍ við þessa tillögu.
- Á Alþingi hef ég oftar en ekki flutt þingmál til lækkunar á raunvöxtum og talaði oftsinnis fyrir því utan þings og innan að svo lengi sem verðtrygging yrði við lýði þá yrði jafnframt að vera lögbundið hámark á vöxtum, nefndi ég oft 1% í því sambandi.
- Kvótakerfið og alvarlegasta lagasetningin í sambandi við það, heimild til framsals árið 1990, var fyrir þingsetu mína en engu að síður andmælti ég þessari lagasetninngu mjög harðlega sem þáverandi formaður BSRB.
- Framsalinu hef ég alltaf verið andvígur, átti þátt í að smíða fyrningarstefnu VG sem því miður var ekki framfylgt í stjórnartíð S og VG og er það miður.
- Að lokum er ég ósammála Hauki um sjarma Bernie Sanders. Mér finnst hann sjarmerandi. „