VARAÞINGMAÐUR Á HVÍTUM SLOPPI
Skyldi vera eitthvað í Codex edicus læknanna um það hvenær sé við hæfi að koma fram í hvítum læknasloppi í pólitísku viðtali og þá hvenær rétt sé að láta sloppinn hanga á snaganum? Að sumu leyti hefði mér fundist heiðarlegra af Þorvaldi Ingvarssyni,1.varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins í N-austurkjördæmi að klæðast jakkafötum, jafnvel teinóttum, í fréttaviðtali við Sjónvarpið í kvöld þegar hann talaði fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.
Auðvitað var það rétt hjá fréttastofunni að titla Þorvald sem framkvæmdastjóra lækningasviðs við sjúkrahúsið á Akureyri, því þeirri stöðu gegnir hann, en það hefði, alla vega í framhjáhlaupi , mátt minna okkur á að þarna talaði jafnframt pólitískur samherji Guðlaugs Þórs, einkavæðingarráðherra heilbrigðismála.
Þorvaldur fór á nokkuð lipran hátt með stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að fjármagn skuli fylgja sjúklingi og nú þurfi að búa í haginn fyrir samkeppni. Ég náði þessu að vísu ekki alveg hjá honum með samkeppnina við útlönd. Sjálfum finnst mér þetta snúa meira inn á við, um að útrýma biðlistum, auka gæðin, bæta kjör starfsfólksins og passa upp á hagsmuni greiðandans. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki staðið sig í stykkinu. Hvers vegna skyldi fréttamaðurinn ekki hafa spurt varaþingmanninn að þessu? Fréttamanni hefði kannski komið það í hug ef viðmælandinn hefði verið í annarri múnderingu; ef Þorvaldur Ingvarsson hefði mætt í navy blue en ekki á hvítum sloppi frá FSA.