Vaxandi efasemdir um að Íslendingar eigi erindi í Öryggisráð SÞ
Í dag flutti Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, skýrslu á Alþingi. Þar komu fram áherslur ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum: Fullkomin fylgispekt, nú sem fyrr, við utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sennilega enn andheitari ástarjátning en nokkru sinni fyrr. Skýringin er ekki skoðanamunur þeirra Davíðs og Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, heldur hitt að Davíð er sennilega meiri tilfinningamaður og tjáir sig ákafar. Þó held ég að Halldór hefði ekki gengið eins langt og Davíð gerði í dag í formælingum í garð Palestínumanna og upphafningu Sharons, forsætisráðherra Ísraels, sem Davíð telur að sé nú helstur baráttumaður fyrir friði fyrir botni Miðjarðarhafs! Ariel Sharon er sem kunnugt er einn mesti haukur í röðum Ísraelsmanna, maðurinn sem kveikti ófriðarbálið fyrir fjórum árum, bálið sem enn logar; maðurinn sem er að reisa kynþáttamúrinn á Vesturbakkanum!!
Davíð Oddsson sagði að mannréttindi væru algild og þau ættu Vesturlönd að "flytja út". Undir það tek ég. Við eigum að berjast fyrir mannréttindum um allan heim. En svo það megi takast er skilyrði að við séum sjálf lýðræðislega þenkjandi og sýnum í verki að við sjálf störfum í anda mannréttinda.
Utanríkisráðherra, sem dásamar innrásina í Írak, minnist ekki orði á lygarnar sem innrásin var réttlætt með, pyntingarnar í herfangelsunum, dauða og tortímingu óbreyttra borgara, er ekki beint trúverðugur að þessu leyti. Eðlilegt er að spyrja hvort hann eigi yfirhöfuð erindi með sinn fulltrúa í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna? Ég segi Nei. Ég hef orðið vaxandi efasemdir um að með nokkru móti megi réttlæta fjárausturinn í áróðursherferð þeirra Davíðs og Halldórs fyrir því að troða "okkar manni" inn í Öryggisráðið. Öðru máli gegndi ef við fylgdum sjálfstæðri og réttsýnni utanríkisstefnu. Því er hins vegar ekki að heilsa á Íslandi í dag.