VAXANDI SKILNINGUR Á STÖÐU ÍSLANDS
02.02.2010
Ekki fer fram hjá neinum að þeim fer fjölgandi á evrópskum þjóðþingum, í heimi fjölmiðlunar og þar af leiðandi á meðal hins almenna borgara, sem hafa skilning á stöðu Íslands og því ofríki sem Bretar og Hollendingar hafa beitt okkur. Fólk úr öllum stjórnmálaflokkum er furðu lostið yfir því hvernig Evrópusambandið hefur beitt sér og þá ekki síður hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur verið beitt gegn Íslandi.
Ekki síst á meðal norrænna vinstri manna hafa vaknað spurningar um réttmæti þess að tengja opnun lánalína til Íslands skilyrðum framangreindra aðila. Það er engin tilviljun að hin nýja vitundarvakning verður þegar umræðan opnast, hættir að vera innan þröngs hóps ráðamanna og fer vítt og breitt. Það er ekki að undra að Bretar og Hollendingar hafa jafnan lagt áherslu á að allt sem snertir Icesave skuli hulið leyndarhjúp. Þeir vita sem er, að um leið og þessum hjúpi er svipt brott koma ýmsar óþægilegar staðreyndir í ljós.
Ánægjulegt er að heyra þá tóna sem nú heyrast frá norrænum vinstri flokkum, svokölluðum systurflokkum VG á Norðurlöndum. Í síðustu viku kom allfjölmenn sveit frá þessum flokkum saman til reglubundins samráðsfundar í Kaupmannahöfn. Af Íslands hálfu gerðu þingmenn VG, þau Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingflokksformaður og Ásmundur Einar Daðason, grein fyrir stöðu Icesave málsins. Sama gerði Elvira Méndes prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sem sérstaklega hafði verið boðið til fundarins til að fara yfir lagalegar hliðar málsins.
Í kjölfar fundarins var samþykkt ályktun allra norrænu vinstri flokkanna þar sem ríkisstjórnir Norðurlandanna eru hvattar til að styðja við bakið á Íslendingum í viðleitni þeirra til að fá sanngjarna niðurstöðu í Icesave málinu og að Norðurlöndin eigi ekki að gera það að skilyrði fyrir lánveitingum til Íslands að áður hafi verið gengið frá samkomulagi við Breta og Hollendinga.