Fara í efni

Veit ríkisstjórn Íslands hverja hún er að styðja?

Ráðandi stjórnmálaöfl í Bandaríkjunum telja að kynþáttabundinn sýklahernaður gæti orðið "nýtilegt pólitískt verkfæri" á komandi öld. Getum við lagt trúnað á þetta? Já við getum það og fjallar þessi grein um það og þá miklu gagnrýni sem er að rísa um heim allan á stríðsrekstur Bandaríkjamanna, einnig í Bandaríkjunum, og þá af hálfu hægri manna ekki síður en þeirra sem standa til vinstri.

Ég bendi mönnum á að fara inn á vefslóðina fyrir Áætlun um nýja öld Bandaríkjanna, samtök sem Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, Jeff Bush ríkisstjóri og bróðir forseta BNA, Paul Wolfowitz, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Richard Perle, formaður varnarmálanefndar Pentagons, hermálaráðuneytisins bandaríska og fleiri mjög hátt settir ráðamenn í ríkisstjórn Bandaríkjanna stofnuðu árið 1997. Þessi samtök tala fyrir því að heimurinn allur lúti Bandaríkjamönnum (global leadership), og að öxluð verði ábyrgð á því að varðveita og útvíkka þá alþjóðaskipan "sem stuðlar að og styrkir í sessi öryggi, velsæld og verðmætamat Bandaríkjanna."

Hér á síðunni var í gær vísað til bréfs frá þessum aðilum árið 1998 til Clintons þáverandi Bandaríkjaforseta þar sem hvatt var til árásar á Írak til að tryggja olíuhagsmuni Bandaríkjanna. Í fjölmiðlum í gær var nokkur umfjöllun um framangreind samtök og óhuggulegar hugmyndir þeirra um árásir á ýmis ríki heims og tilraunir til heimsyfirráða. Öllu slá þó við þær hugmyndir sem fram eru settar af hálfu samtakanna í framtíðarsýn þeirra á hernaðaruppbyggingu en mikil áhersla er þar lögð á stóraukin útgjöld til hermála. Ekki er nóg með þetta. Talað er um þá möguleika sem séu fyrir hendi í vígbúnaði og spáð byltingu á því sviði. Styrjaldir verði háðar í geimnum (Bandaríkjastjórn hefur þegar sagt upp ABM samningnum um bann við langdrægum gagneldflaugum samkvæmt hugmyndarfræði þessa hóps) og síðan megi búast við nýjungum á sviði sýklahernaðar. Orðalagið í skýrslum hópsins vekur athygli en vísað er í "hátæknilegan sýklahernað sem beina megi að afmarkaðri arfgerð en þetta gæti breytt sýklahernaði þannig að hann nýttist ekki aðeins sem vopn hryðjuverkamanna  heldur yrði að nothæfu tæki í stjórnmálalegum tilgangi." ("...advanced forms of biological warfare that can "target" specific genotypes may transform biological warfare from the realm of terror to a politically useful tool").

Þennan hóp öfgamanna styður ríkisstjórn Íslands, að því er virðist, algerlega gagnrýnislaust. Ekki er nóg með að flest ríki heims komi nú fram af mikilli varúð gagnvart Bandaríkjastjórn sem greinilega er reiðubúin að hundsa Sameinuðu þjóðirnar, jafnvel fagna því að þær skuli veikjast (sbr. blaðagrein Richards Pearl: "Thank God for the death of the UN"), heldur virðast uppi efasemdir í alþjóðasamfélaginu um dómgreind ráðandi afla í Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum sjálfum sætir stjórn Bush vaxandi gagnrýni og vekur athygli að sú gagnrýni kemur ekki síður frá hægri en vinstri. Ég læt hér fylgja tvær vefslóðir nánast af handahófi þar sem annars vegar má lesa athyglisverða grein eftir Patrick Buchanan sem var ræðuritari Nixons á sínum tíma og hins vegar vefsíðu hægri manna gegn stríði, sem hefur að geyma athyglisverðar upplýsingar.

Ég er í hópi þeirra fjölmörgu sem gagnrýnt hafa ríkisstjórn Íslands mjög harðlega fyrir afstöðu hennar til árásarinnar á Írak. Ríkisstjórn Íslands hefur hvergi hvikað og flytja ráðherrar okkur nær orðrétt skilaboðin frá áróðursmeisturum vestan hafs. Nú tel ég hins vegar að fram sé komin vitneskja, sem renni enn frekari stoðum undir okkar málflutning og ætti að verða til þess að ríkisstjórnin endurmeti afstöðu sína.

Eftirfarandi vefslóð leiðir okkur inn á vefsíðu Project for New American Century. Þar má sjá helstu stefnumarkmið samtakanna og nöfn þeirra sem stóðu að stofnun þeirra. Vilji menn finna tilvitnunina sem greinir frá að ofan skulu menn fara í reports og opna skýrslu sem heitir, Rebuilding America´s Defenses: Strategy, Forces and Resources for a New Century. Tilvitnunin er á bls. 60: www.newamericancentury.org

Eftirfarandi vefslóðir vísa í gagnrýni bandarískra hægri manna á stefnu Bush stjórnarinnar.

http://www.amconmag.com/03_24_03/index1.html  

http://www.againstbombing.org/