VEL HEPPNAÐUR IÐNÓFUNDUR UM HEIMAÞJÓNUSTU VIÐ ALDRAÐA
Fundurinn í Iðnó sl. laugardag um þjónustu við aldraða í heimahúsum var fjölsóttur og í alla staði vel heppnaður.
Þrír frummælendur voru á fundinum, Þórunn S. Einarsdóttir, félagsráðgjafi, Gunnar Alexander Ólafsson, heilsuhagfræðingur og Anna Þrúður Þorkelsdóttir, þjóðfræðingur, fluttu erindi en öll búa þau yfir mikilli þekkingu og reynslu um málefnið.
Niðurstaða þeirra allra var á þá lund að þjónustan væri óviðunandi, kerfið ekki nógu sveigjanlegt og álagið of mikið á það starfsfólk sem sinnti þessum verkefnum.
Hér að neðan er slóð á umfjöllun mbl.is um fundinn og leiðari Morgunblaðsins daginn sem fundurinn var haldinn. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/05/14/aldradir_thurfa_felagsskap_og_nand/
Þá birtist hér á heimasíðunni stórgóður pistiill Sigríðar Stefánsdóttur, réttarfélagsfræðings, um efnið, sett fram á grípandi hátt! sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/sigridur-stefansdottir-skrifar-eg-fer-i-sturtu-amk-einu-sinni-a-dag-og-nota-hahrada-tengingu-allan-solarhringinn
Leiðari Morgunblaðsins, laugardaginn 13. maí:
"Heima sem lengst?
Í heilbrigðiskerfinu er nú lögð áhersla á að gera öldruðum kleift að dvelja sem lengst heima hjá sér. Það er sjálfsagt markmið og eðlilegt. Flestir vi...
Í heilbrigðiskerfinu er nú lögð áhersla á að gera öldruðum kleift að dvelja sem lengst heima hjá sér. Það er sjálfsagt markmið og eðlilegt. Flestir vilja bíða með það í lengstu lög að fara inn á stofnun. Til þess að fylgja þessu eftir er boðið upp á stuðning, þjónustu og umönnun af ýmsum toga. Ekki hefur þó allt verið sem skyldi í þeim efnum.
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, skrifar um þessi mál í Morgunblaðið í fyrradag. Þar segir hann að þessi stefna hafi notið almenns stuðnings í samfélaginu. »En þá fyrst og fremst sem stefna,« segir hann í greininni og bætir við: »Það fólk sem hefur kynnst stefnunni í framkvæmd er ekki alltaf jafn sannfært.«
Ögmundur lýsir því að hann hafi »séð til verka fólks sem sinnir heimahjúkrun og aðhlynningu í heimahúsum og sannfærst um að þar er upp til hópa afar hæft og gott fólk. En ég hef líka fengið að kynnast álaginu sem þetta fólk starfar undir og hver kjör því eru búin.«
Í greininni vísar Ögmundur í fréttir þess efnist að erfitt verði að manna þjónustuna þannig að sinna megi lágmarksþörfum á næstu mánuðum: »Í stað þess að halda í horfinu, hvað þá að draga úr þjónustunni(!), hefði þurft að bæta verulega í, því ekki hef ég hitt þann einstakling sem telur ástandið viðunandi.
Hjálparþurfi fólk á tíræðisaldri í heimahúsum í Reykjavík getur að hámarki fengið aðstoð við böðun einu sinni í viku. Er það þannig sem við viljum hafa þetta? er þetta dæmi um framangreinda stefnu - allir heima sem lengst - í framkvæmd?«
Þetta eru þarfar ábendingar hjá Ögmundi. Því má svo við bæta að einn fylgifiskur þessarar stefnu er að fólk kemst ekki að á stofnunum þótt það sé ekki lengur fært um að búa eitt heima hjá sér þrátt fyrir þá þjónustu, sem er á boðstólum.
Þá hefur skortur á hjúkrunarrýmum leitt til þess að iðulega er fólk sent heim eftir að hafa verið á sjúkrahúsi áður en það er tilbúið að sjá um sig sjálft. Læknar þurfa að taka á móti nýjum tilfellum og sjúklingar, sem þegar hafa farið í aðgerðir eða fengið meðferð, verða að víkja fyrir þeim. Staðreyndin er hins vegar sú að með því að senda fólk of snemma heim er tekin ákveðin áhætta og iðulega snýr það aftur eftir að hafa slasast á nýjan leik af því að það réð ekki við aðstæður. Endurhæfing er þolinmæðisverk og vitað er að með aldrinum er líkaminn lengur að ná sér. Það verður ekki auðveldara þegar slysin endurtaka sig.
Vitað er að flestir una sér best heima hjá sér. Þar geta þeir verið innan um sína muni og þekkja hvern krók og kima. Flutningur á nýjan stað getur valdið óvissu og kvíða og jafnvel orðið til þess að fólki hraki.
Um leið þarf að bjóða öldruðum, sem ekki ráða lengur við að vera heima, upp á önnur úrræði. Þá rekst fólk hins vegar iðulega á veggi og sönnunarbyrðin getur verið þung þegar sótt er um vistunarmat. Sú tilfinning vaknar jafnvel að það þurfi að beita ýkjum og draga upp sem dekksta mynd af ástandi umsækjanda til að einhver von sé til að nálaraugað opnist. Og þó sé ekki víst að það dugi til.
Það hljómar vel að gera eigi öldruðum kleift að dvelja sem lengst á heimilum sínum. En það mega ekki vera innantóm orð. Slíkum fyrirheitum verður að fylgja bolmagn til þess að aldraðir getið dvalið á heimili sínu með reisn. Það þarf að sinna ólíkum þörfum þeirra og veita þeim þjónustu. Sumir geta verið algerlega sjálfstæðir, aðrir þurft mikla umönnun. Sumir hafa gott bakland, aðrir standa einir. Ætlunin getur ekki verið sú að láta fólk hírast heima hjá sér við illan kost vegna þess að önnur úrræði bjóðast ekki? Það er ekki nóg að setja háleit markmið - það verður að vera innistæða fyrir þeim.
Það er ekki nóg að setja háleit markmið - það verður að vera innistæða fyrir þeim"