Fara í efni

VÉLFLUGAN RÝFUR ÞÖGNINA

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 25/26.06.16.
Vélflugur eru um margt ágætar. Sama á að sjálfsögðu við um mannaðar smávélar. Um hinar stærri flugvélar þarf ekki að fjölyrða enda öllum augljóst hve mikilvægar þær eru orðnar í samgöngukerfi heimsins. Svo ómissandi að stundum vill gleymast hin dekkri hlið, mengunin sem af flugumferð hlýst.

Ég hef stundum dásamað suðið í æfingaflugvélunum á Reykjavíkurflugvelli; finnst þær vera kærkominn vorboði, því í minningunni tengi ég smávélarnar góðu veðri og sumri. Vonandi verða þær ekki gerðar útlægar af Reykjavíkurflugvelli einsog tillögur hafa verið um.

Og enn á hinum jákvæðu nótum: Svokallaðir drónar, mannlausar vélflugur, færa okkur byltingarkenndar framfarir. Unnt er mæla og mynda landsvæði, fylgjast með gróðurfari og uppskeru, mannvirkjum, hvort brýr og vegir eru í lagi og er listinn um gagnsemi miklu lengri og á án efa eftir að lengjast.

En öllu má ofgera. Fyrir nokkrum mánuðum var ég sem oftar að sýna gestum Geysi og Strokk. Ekki geri ég kröfu um þögn á þessum fjölmenna ferðastað. En allan tímann sem við staðnæmdust við náttúruperluna suðaði vélfluga yfir höfðum okkar. Síðar sá ég að stjórnandinn var á staðnum til að stýra flugunni og láta hana mynda svæðið.

Þetta var í sjálfu sér ósköp saklaust. En hugsum okkur að flugurnar hefðu verið fleiri og ímyndum okkur að flugnagerið breiddi úr sér og færi suðandi um óbyggðir Íslands.

Allt er þetta spurning um fjölda og magn. Ein og ein flugvél, sem flýgur yfir gönguleiðir á Ströndum eða rýfur kyrrð Herðubreiðarlinda, er varla til að hafa orð á, en þegar slíkt er orðið að venjubundnu mynstri gegnir öðru máli.

Og er þar komið að tilefni þessara hugleiðinga. Í vikunni las ég um ákvörðun bandarísku flugumferðarstjórnarinnar að heimila notkun vélflugna í viðskiptum. Stærðarmörk eru sett en almennt dregið úr hömlum. Þó er gerð sú krafa að stjórnandinn geti fylgst með flugu sinni öllum stundum og eru þar með settar skorður við vélrænu póstsendingarkerfi sem Amazon og fleiri eru að þróa.

Hvað sem öllum hömlum líður er ljóst hvað bíður okkar. Verið er að greiða leið vélflugunnar - ekki bara einnar eða fárra heldur gerinu öllu -  inn í tilveru okkar. Ekki er þetta sérstaklega skemmtileg tilhugsun.

En það er náttúrlega einn kostur í stöðunni. Ef okkur þykir þetta slæm þróun þá eigum við einfaldlega ekki að láta þetta gerast. Þá liggur beint við að spyrja hve langt við viljum ganga í nýtingu þessarar tækni og siðan á móti hve mikið við viljum á okkur leggja til að vernda umhverfi okkar og þá ekki síst þann hluta þess sem ég hef grun um að verði vaxandi eftirspurn eftir þegar líður á nýja öld - og það er þögnin.

Í hávaðasömum heimi getur þögnin verið frelsandi. Og gagnvart þeim sem vilja slá öll verðmæti inn í bókhaldsstærðir, leyfi ég mér að fullyrða að þögnin getur meira að segja orðið gulls ígildi.