Verða fleiri leystir frá störfum?
Birtist í Morgunpósti VG 17.11.04.
Ríkissjónvarpið greindi frá því að bandarískur hermaður sem skaut varnarlausan mann til bana í Fallujah í Írak hefði „verið leystur frá störfum“.
Ekki er vitað hve margt fólk í Fallujah hefur verið myrt frá því bandaríski herinn lét til skarar skríða gegn íbúum borgarinnar fyrir viku. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti í þessari árásarhrinu að hermaður er leystur frá störfum, eins og það heitir, vegna mannvígs. Hvernig má það vera? Hvað með alla hina drápsmennina? Gæti skýringin verið sú að hann einn hafi náðst á mynd? Fréttamenn náðu því meira að segja á myndband þegar hermaðurinn drap fórnarlamb sitt – skaut það í höfuðið.
En hvað með þá sem myrtu alla hina? Og hvað með þá sem létu skrúfa fyrir vatn og rafmagn til borgarinnar viku fyrir sjálfa árásina á borgina og bera ábyrgð á því að taugaveiki er nú að breiðast út í Fallujah? Hvað með ábyrgð þeirra sem hafa bannað hjálparsveitum að flytja hjálpargögn til borgarinnar?
Hvað skyldi Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna hafa gert við bréfið – eða öllu heldur ákallið - sem hann fékk frá borgaryfirvöldum í Fallujah þar sem hann var beðinn um stuðning Sameinuðu þjóðanna að koma í veg fyrir fyrirsjáanleg fjöldamorð og hryðjuverk Bandaríkjahers? Skyldi hann hafa sent erindið til Öryggisráðsins? Hefði verið gott að þar sæti nú fulltrúi Íslands? Hefðu íbúar Fallujah átt þar hauk í horni?
Hefði hann krafist þess að Öryggisráðið fordæmdi Bandaríkjastjórn og bresku stjórnina og vitorðsmenn þeirra fyrir stríðsglæpi? Er það kannski frekar ólíklegt? Ég hallast helst að því. Í fyrsta lagi eru sigurvegarar heimsins, stórveldin á hverjum tíma, sjaldnast sökuð um stríðsglæpi – hvað þá að ráðamenn þeirra séu dæmdir fyrir slíka glæpi. Í öðru lagi værum við komin óþægilega nærri Stjórnarráði Íslands ef við í alvöru krefðumst þess að brotið yrði til mergjar hverjir bera ábyrgð í Írak. Íslenska ríkisstjórnin er meðábyrg hernámsliðinu í þeim glæpum sem nú er verið að fremja í Fallujah og víðar í Írak; hún er meðábyrg í glæpum sem eru óumdeilanlega stríðsglæpir. Við erum nefnilega á lista hinna staðföstu stuðningsmanna hernámsins í Írak og þarafleiðandi meðábyrg öllu sem því fylgir.
Þess vegna er lítil von til þess að frumkvæði að því að hinir ábyrgu fyrir stríðsglæpunum í Írak verði leystir frá störfum, komi frá ríkisstjórn með þá innanborðs Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson.