Fara í efni

VERÐA ÞINGKOSNINGAR Í VOR?

Ýmsar leiðir má fara við að túlka ummæli Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins á Alþingi í gær. Í umræðu um Ráðherranefnd Norðurlandaráðs hóf hún, flestum að óvörum ( en að viðstöddum iðnaðarráðherra Valgerði Sverrisdóttur sem sat gleiðbrosandi í salnum), mikinn lestur um Davíð Oddsson, forsætisráðherra og meiningar hans um Evrópusambandið. Davíð hafði sem kunnugt er gert lítið úr því að um stefnubreytingu væri að ræða hjá Framsókn í Evrópumálum á nýafstöðnu þingi flokksins. Það gerði hann á sinn hátt en pólitískir djúpsálfræðingar túlkuðu ummæli hans á þann veg að hann væri að segja, annars vegar að stjórnarsamstarfið væri ekki í hættu og hins vegar við Evrópusinna í Sjálfstæðisflokknum að ályktanir Framsóknar væru ekki meira afgerandi en svo að jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn undir sinni forystu hefði getað samþykkt þær. Siv Friðleifsdóttir skrifaði hins vegar ekki upp á þessa túlkun formanns Sjálfstæðisflokksins og spurði hvort menn gerðu sér virkilega ekki grein fyrir því að nú væru tímamót í Evrópuumræðunni – Framsókn væri nánast komin á beinu brautina til Brussel. Þetta lá í orðum hennar og boðskapurinn engin hálfkveðin vísa.

Hvað ummæli Davíðs Oddssonar snerti þá velti hún því fyrir sér hvort verið væri að undirbúa ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og VG! Þessi var góður. Ég segi nú ekki annað. Hitt liggur nær við að álykta, að Framsókn sé að biðla til Samfylkingarinnar um sameiginlega ríkisstjórn. Til þess þarf að sjálfsögðu kosningar.

Einu sinni var sett fram sú kenning að Sjálfstæðisflokkurinn vildi losna við Framsókn úr ríkisstjórn. Þetta ætti ekki síst við um marga frjálshyggjumenn sem teldu Framsókn notfæra sér um of einkavæðinguna til að hygla pólitískum skjólstæðingum. Það tækist hins vegar ekki að losna við Framsókn því flokkurinn kokgleypti allt sem samstarfsflokkurinn krefðist; svo sneyddur væri hann allri hugsjón að ekkert skipti flokkinn máli annað en nálægðin við kjötkatlana. Þessi lítilþægð væri með ólíkindum. Þess vegna mætti líkja flokknum við tyggigúmmí sem gengist hefði upp í skósóla. Nú væri búið að ganga á tuggunni í tíu ár og væri illmögulegt að ná henni undan sólanum. Nú gerðist það hins vegar að tyggigúmmíið virtist sjálft vilja losna og væri líklegt að eigandi skótausins komi til með að taka því vel og jafnvel hjálpa til.
Gæti verið að þingkosningar verði haldnar í vor? Eitt er víst, að los er komið á stjórnarsamstarfið.