Fara í efni

VERÐUR VEGURINN OPNAÐUR?


Sá sem lætur ekki hjartað ráða för endar í blindgötu. Den der ikke bærer hjertet på vejen ender vejen blindt.
(Lífssannindi úr suður-jóskum háskóla)

Myndin hér að ofan er dæmigerð fyrir það sem sjá má víða í Palestínu. Góðum vegi hefur verið lokað með stórum jarðvegshrúgum. Annars staðar eru vegirnir grafnir í sundur: Allt til að torvelda Palestínumönnum verslun og almennar samgöngur á milli bæja. Vegasamgöngum á milli landránsbyggða Ísraela á herteknu svæðunum er hins vegar haldið í góðu horfi.

Í Palestínu verður aldrei varanleg sátt án réttlætis, án þess að öllum hömlum verði létt af Palestínumönnum, hinni hernumdu þjóð og henni gert frjálst að athafna sig á allan hátt og fara frjáls sinna ferða. Þetta ber öllu frjálshuga fólki sem við hittum saman um.

Nú að afloknum kosningum í landinu spyrja menn því hvort samskipti Ísraela og Palestínumanna eigi eftir að breytast, hvort opna eigi leið inn í framtíðina. Skírskotun til vegarins hefur þannig hvort teggja í senn; bæði eiginlega og óeiginlega merkingu.  

Það var þungt hljóð í biskupnum í lútherska söfnuðinum í Palestínu þegar við hittum hann að máli í Jerúsalem um síðustu helgi, ferðafélagarnir Borgþór Kjærnested, skipuleggjandi fararinnar fyrir hönd félagsins Ísland Palestína og Eiríkur Jónsson formaður KÍ. Gyðingar standa í þeirri trú, eða öllu heldur leggja þeir dæmið þannig upp, að landið þarna sé allt þeirra. Almættið, sá sem standi í hæstum hæðum, "Our Lord", hafi fengið þeim þetta land til umsýslu og eignar. Ég kannast hins vegar ekki við að það almætti sem ég tilbið hafi komið þar við sögu, sagði dr. Munib A. Younan biskup og brosti í kampinn. Ég held það hljóti að vera breski lávarðurinn, Lord Balfour, sem þeir eiga við.

Hér vísar biskupinn kaldhæðnislega til svokallaðrar Balfour yfirlýsingar. Balfour lávarður var utanríkisráðherra Bretlands árið 1917 þegar breska stjórnin lýsti stuðningi við þá hugmynd að í Palestínu fengju gyðingar þjóðarheimili. Í bréfi sem hann ritaði til Rothschilds, eins helsta forsvarsmanns Zíonistahreyfingarinnar á þessum tíma var tekið skýrt fram að ekkert mætti þó aðhafast sem skerti mannréttindi, trúarleg eða önnur réttindi þeirra sem byggju í landinu fyrir. 

Bréfið var svohljóðandi á ensku:

Foreign Office
November 2nd, 1917
Dear Lord Rothschild,

I have much pleasure in conveying to you, on behalf of His Majesty's Government, the following declaration of sympathy with Jewish Zionist aspirations which has been submitted to, and approved by, the Cabinet.
"His Majesty's Government view with favour the establishment in Palestine of a national home for the Jewish people, and will use their best endeavours to facilitate the achievement of this object, it being clearly understood that nothing shall be done which may prejudice the civil and religious rights of existing non-Jewish communities in Palestine, or the rights and political status enjoyed by Jews in any other country."
I should be grateful if you would bring this declaration to the knowledge of the Zionist Federation.
Yours sincerely,
Arthur James Balfour

Það gekk eftir að gyðingar fengu þjóðarheimili í Palestínu með stuðningi alþjóðasamfélagsins, Sameinuðu þjóðanna, árið 1947. En þeir sættu sig ekki við það sem þeim var ákvarðað með þeim hætti. Með fjöldamorðum og hryðjuverkastarfsemi  hröktu þeir 750 þúsund Palestínumenn frá heimilum sínum og með hernaði (6-daga stríðinu 1967) sölsuðu þeir undir sig svo mikið land að Palestína er nú aðeins fimmtungur af því sem áður var ákvarðað. Og áfram skal haldið á þessari braut með byggingu hins illræmda kynþáttamúrs.

Austur - Jerúsalem hafa þeir ráðið yfir frá 1967, en áður hafði þessi hluti borgarinnar tilheyrt Jórdaníu. Hún er að uppistöðu byggð Palestínumönnum. Ísraelar vildu austurhluta Jerúsalem – það er að segja borgarhlutann – ekki fólkið, segir Munib A. Younan biskup og enn er grunnt á kaldhæðni. Auðvelt er að finna hve réttlætiskennd hans er misboðið: Ofbeldið birtist okkur nær daglega. Kunningi minn, Palestínumaður, er giftur palestínskri konu frá Jenin. Þau hafa búið saman í hjónabandi í átta ár og eiga fimm ára gamalt barn. Barnið og móðirin eru í reynd ólöglegir íbúar borgarinnar, tilheyra svokölluðum ólöglegum fjölskyldum, um fimm þúsund talsins í Jerúsalem. Þetta fólk nýtur engra félagslegra réttinda, hjá tryggingastofnun, sjúkrasamlagi eða öðrum ámóta aðilum. Þetta fólk er ekki til nema þegar á að sekta það. Í þessu tilviki er það aðeins heimilsfaðirinn, sem er upprunninn í borginni sem hefur rétt til að búa þar. Um daginn voru mæðginin handtekin og sektuð um 60 þúsund krónur hvort, konan og barnið, fyrir að vera ólöglega á ferli.

Lútherstrúarmenn eru hlutfallslega fámennir í Palestínu, aðeins um 2% íbúanna. Og þeir flytjast á brott, aðallega vestur um haf, til Bandaríkjanna, segir biskupinn: Á undanförnum fjórum árum hafa að jafnaði flust um 2500 á ári.

Munib A. Younan biskup segir að sem betur fer geri margir gyðingar sér grein fyrir því hvað er að gerast. Hann segir líka frá bandarískum gyðingum sem komið höfðu til Ísraels eftir að hafa gefið þangað mikla fjármuni. Þegar þau hafi gert sér grein fyrir hvernig komið væri mannréttindum Palestínumanna hafi þau orðið miður sín. Við börðumst fyrir Ísrael, síðan komum við og sáum múrinn. Nú blygðumst við okkar.

Og biskupinn hélt áfram frásögn sinni og vangaveltum: Ísrael er pólitísk eining, og þannig á að líta á ríkið. Vandinn er sá að það skilgreinir sig sem trúarríki. Þetta er nokkuð sem við reynum að forðast; við rekum skóla fyrir 3000 börn í Palestínu. Aðeins 6% þeirra eru lútherstrúar! Fyrr á tíð bjuggu Gyðingar og Palestínumenn hér í sátt og samlyndi. Sú tíð er liðin. Má ekki endurvekja þann tíma, spurðum við. Jú, en ekki með því að stofna eitt sameiginlegt ríki. Það líta Ísraelsmenn á sem ögrun við trúarríki sitt. En það er rétt, að þessa hugsun þarf að endurvekja; stofna palestínskt ríki við hlið Ísraels, stuðla að góðum samskiptum á milli þessara tveggja ríkja. Samskiptin verða að byggja á gagnkvæmri virðingu. Sonur minn fór utan í morgun. Hann var afklæddur á Ben Gurion flugvelli. Ég veit og hann veit að það er vegna þess hver hann er. Þessi reynsla á eftir að sitja í honum. Þetta er örlítið dæmi. Þau eru miklu fleiri dæmin sem eru mun alvarlegri, manndráp, eyðilegging, frelsissvipting og hvers kyns niðurlæging. Þessu verður að breyta. Þessu verða Ísraelsmenn að breyta. Þeir munu aldrei skapa sjálfum sér öryggi nema þeir sýni grönnum sínum virðingu og komi fram við þá af mannkærleika.

Öll kaldhæðni var nú horfin úr rödd lútherska biskupsins í Palestínu. Rödd hans var þrungin alvöru.