Verslunarráð Íslands boðar þjóðarsátt
Birtist í Mbl
Í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag er greint frá skýrslu Verslunarráðs Íslands til Viðskiptaþings. Í skýrslunni kemur fram að kostnaðarvitund almennings í heilbrigðismálum sé nú lítil sem engin og sé brýnt að breyting verði þar á og kostnaður fluttur í einhverjum mæli frá ríkinu til þeirra sem þjónustunnar njóta. Hér kveður við gamalkunnan tón frá því í byrjun tíunda áratugarins þegar sem mest var um það rætt af hálfu stjórnvalda að innræta veiku fólki kostnaðarvitund. Svo rammt kvað að þessari hugsun að um miðjan áratuginn voru gefin út svokölluð vasafjárlög þar sem gat að finna nákvæman útreikning á því hvað fatlað fólk kostaði samfélagið. Allt bar að sama brunni: að réttlæta niðurskurð og hlaða byrðunum á „neytandann“ eða „notanda þjónustunnar,“ hann átti að hafa kostnaðarvitund, gera sér grein fyrir því hver baggi hann væri á samfélaginu. Vitað var að sá sem býr yfir slíkri vitund gerir ekki miklar kröfur.
Verslunarráðið og kostnaðarvitundin
Verslunarráð Íslands vill ganga lengra en innræta sjúklingum kostnaðarvitund. Í fyrrnefndri skýrslu er hvatt til víðtækrar einkavæðingar í heilbrigðisþjónustunni. Og til hvers skyldi gera þetta? Ekki stendur á svari: Svo um velferðarþjónustuna skapist almenn sátt í þjóðfélaginu. Til að ná þessari sátt vill Verslunarráðið byrja á einkavæðingu ýmissa þátta velferðarþjónustunnar þar sem samkeppni verði vel komið við svo sem langlegudeilda og hvíldarinnlagna en einnig eigi að einkavæða starfsemi þar sem „engin rök eru fyrir“ ríkisrekstri. Þar eru meðal annars nefnd þvottahús, apótek og mötuneyti. Þessir þættir séu best komnir hjá „aðilum með sérþekkingu.“ Nú er það náttúrlega svo að sérþekkingu á þessum málum er að finna hjá heilbrigðisstofnunum landsins og fyrir þá sem ekki vita má geta þess að á sínum tíma fór fram ítarleg skoðun á hagkvæmni þess að einkavæða þvottahús Ríkisspítalanna. Niðurstaðan varð sú að slíkt myndi ekki borga sig fjárhagslega.
Varðandi boðskap Verslunarráðs Íslands um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar er það að segja að hann er á þá lund að ólíklegt má heita að um hann geti tekist þjóðarsátt. Er til dæmis líklegt að einstaklingurinn sé „líklegri til að taka ábyrgari afstöðu til heilsunnar ef hann getur átt von á því að þurfa að axla einhverja fjárhagslega ábyrgð af heilsubresti,“ svo vitnað sé til skýrslunnar. Eða vilja menn láta sérstaklega rukka fyrir aðhlynningu vegna meiðsla af völdum slagsmála eins og Verslunarráðið leggur til? Og hvar skyldi Verslunarráðið vilja draga mörkin? Á ef til vill ekki að hlú að krabbameinsjúklingi sem hefur reykt um ævina, eða á að láta áfengissjúklinga sigla sinn sjó og hvað með fíkniefnaneytendur almennt?
Hvers virði er heilsan?
Ætli staðreyndin sé ekki sú að þá fyrst fari menn að huga að heilsunni og fyrirbyggjandi aðgerðum til heilsuverndar þegar þeim skilst hve mikils virði heilsan er hverjum einstaklingi; að hún er undirstaða lífsgæða. Hvað slagsmálin áhrærir þá á ekki að refsa fyrir þau á sjúkrastofunni, það skal gert í réttarsal ef þörf er á. Fyrst og fremst ber okkur þó að stunda fyrirbyggjandi uppeldisstarf á heimilum, í skólum og almennt í þjóðfélaginu til að útrýma obeldi.
En aðeins nánar um þjóðarsáttina. Viðamesta könnun sem gerð hefur verið um afstöðu íslensku þjóðarinnar til skattlagningar og þjónustugjalda var framkvæmd á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir BSRB haustið 1998. Þar kom fram að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er ánægður með íslenska velferðarþjónustu þótt víða telji menn nauðsyn á úrbótum. Þær úrbætur vilja menn fjármagna með almennum sköttum en ekki þjónustugjöldum og er athyglisvert í því sambandi að andstaðan gegn þjónustugjöldum hefur aukist borið saman við könnun sem gerð var árið 1989 af sama aðila. Þannig voru yfir 70 af hundraði andvígir auknum þjónustugjöldum árið 1998 en einungis 60 af hundraði voru þeirrar skoðunar árið 1989. Á þessum áratug voru þjónustugjöld innleidd víða innan heilbrigðisþjónustunnar þar sem þau höfðu ekki þekkst áður. Þá kom einnig fram í könnuninni að fólk (67 af hundraði) var tilbúið að borga hærri skatta til að halda víðtækri félagslegri þjónustu. Þetta ætti að verða Verslunarráði Íslands umhugsunarefni áður en næst verður boðað til þjóðarsáttar.