Verslunarráð Íslands nær árangri
Birtist í Fréttablaðinu 18.02.04
Fyrir fáeinum dögum efndi Verslunarráð Íslands til fundar með fréttamönnum og var tilefnið að kynna stefnu samtakanna í heilbrigðismálum. Í stuttu máli gengur þessi stefna út á að einkavæða heilbrigðiskerfið. Í fyrstu skrefum á að tálga nánast alla þjónustu utan af sjúkrahúsunum og markaðsvæða hana. Til að undirbúa markaðsvæðinguna þarf náttúrlega að gera sjúklingum grein fyrir því að þeir eru ekki veikt fólk að leita lækninga, heldur eru þeir viðskiptavinir á markaði að leita eftir ódýrri þjónustu. Til þess þarf að sjálfsögðu hugarfarsbreytingu hjá veiku fólki. Þá hugarfarsbreytingu kalla þeir hjá Verslunarráðinu að innræta fólki kostnaðarvitund. Það liggur í augum uppi að fólk sem ekki býr yfir kostnaðarvitund er með öllu ófært að taka þátt í verslun og viðskiptum.
Hærri gjöld – skýrari kostnaðarvitund
Ekki er þetta með öllu nýtt trúboð. Á fyrri hluta stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks fyrir rúmum áratug var sama uppi á teningnum. Kapp skyldi lagt á að innræta bæði starfsfólki og ekki síður sjúklingum vitund um hvað veikindi og lækningar kostuðu samfélagið. Markvissasta leiðin til að ná þessu takmarki væri að láta fólkið borga. Því meira sem menn fyndu fyrir í eigin pyngju, þeim mun skýrari yrði vitundin. Settar voru upp sjóðsvélar á öllum heilsugæslustöðvum landsins og var nú farið að rukka um aðgangseyri. Efnt var til sér
Samtök launafólks andæfðu þessu sem best þau gátu. BSRB réðst í upplýsingaherferð með greinaskrifum og auglýsingum í útvarpi og sjónvarpi. Einnig urðu til sérstök samtök sjúklinga, Almannaheill, sem mótmæltu af miklum krafti. Þetta varð til þess að ríkisstjórnin hætti við ýmis grófustu áform sín. Þó eimdi lengi eftir af þessari stefnu og má nefna sem dæmi að fyrsta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, frá 1995 að telja, gaf út sérstök “vasafjárlög”, smábækling þar sem til dæmis fatlaðir gátu flett því upp hvað þeir kostuðu þjóðfélagið mikið. Ég efast ekki um að Verslunarráðinu hafi þótt þetta til mikillar fyrirmyndar.
Reyndar er það svo að frá þessum árum sitjum við uppi með stóraukna gjaldtöku á sjúklinga. Í árslok 2001 gerði BSRB sér
Almennt séð greiða sjúklingar sem leggjast inn á sjúkrahús ekki fyrir aðhlynningu og lækningar. Hins vegar fæ ég ekki betur séð en þetta kerfi sé allt að molna enda þannig búið að sjúkrahúsunum að þeim er beinlínis þröngvað til að seilast í vasa sjúklinganna. Þannig á þetta hins vegar ekki að vera og berast stöðugt ábendingar og kvartanir bæði frá starfsmönnum og sjúklingum.
Nýlegt dæmi úr veruleikanum
Eftirfarandi er nýlegt dæmi, eitt af mýmörgum og alls ekki dæmi um hæstu upphæðir sem greiddar eru. Það vill svo til hins vegar að ég hef reikningana fyrir framan mig. Kona kemur á Landspítala - Háskólasjúkrahús til að gangast undir skurðaðgerð í meltingarvegi. Í aðdraganda innlagnar eru gerðar athuganir á sjúkrahúsinu og var konan krafin um 15.771 kr. fyrir. Konunni var brugðið. Ef hún hefði verið mjög peningalítil hefði hún sennilega íhugað að hverfa frá. Rannsóknir sýna að sá hópur fer stækkandi sem gerir það. En ekki hefði það verið gott í þessu tilviki. Sjúkdómurinn var þess eðlis. Konan liggur núna á sjúkrahúsinu og er búin að gangast undir aðgerð. Ég vona að henni heilsist vel. En ég get borið vitni um að kostnaðarvitund hennar hefur verið vakin. Ég get fullvissað Verslunarráðið um það. Það hlýtur að vera ánægjuefni á þeim bæ þegar upplýsingar berast um árangur af starfi ráðsins.