VG, SJÁLFBÆR ÞRÓUN OG VARIÐ LAND
Í dag kynnti Vinstrihreyfingin - grænt framboð stefnu sína í umhverfismálum. VG hefur gefið út ritið Græn framtíð um sjálfbæra þróun. Sjálfbær þróun snertir samfélagið allt og snýst um afstöðu stjórnvalda og almennings til samfélags og umhverfis. Í kynningu segir: "Þegar ákvarðanir eru teknar í samfélagi, sem stefnir í átt til sjálfbærrar þróunar, ber að leggja áherslu á samspil vistfræðilegra, samfélagslegra og efnahagslegra þátta. Græn framtíð hefur að geyma stefnumörkun Vinstri grænna til næstu ára um sjálfbæra samfélagsþróun jafnframt því sem skyggnst er lengra fram á veg."
Áhersla á umhverfi og sjálfbæra þróun er einn af hornsteinum í stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Það er gleðilegt að aðrir flokkar skuli hafa tekið umhverfismálin meira inn í sínar kosningaáherslur en fram til þessa. Það ber vott um árangur þrotlausrar baráttu VG á undanförnum árum að svo skuli vera. Þeim mun fleiri sem koma auga á okkar fagra land og vilja vernda það fyrir ásælni erlendra auðhringa – því betra!