Fara í efni

VG VERÐUR AÐ GANGA Í ENDURNÝJUN LÍFDAGA

G L GRETARS
G L GRETARS


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur gefið út tilkynningu um að hún muni ekki gefa kost á sér í komandi Alþingiskosningum. Það er mikil eftirsjá að Guðfríðu Lilju úr stjórnmálum. Hún hefur reynst staðföst baráttukona fyrir þeim hugsjónum og gildum sem Vinstrihreyfingin grænt framboð er reist á og þeim loforðum sem flokkurinn hefur jafnan gefið fyrir kosningar.
Í yfirlýsingu Guðfríðar Lilju kemur fram þakklæti í garð samherja sem settu traust sitt á hana en þar er jafnframt að finna fyrir gagnrýni sem ég tel að VG eigi að taka til sín og reyndar allir stjórnmálaflokkar á þingi. 

Gegn einstefnumenningu

Í yfirlýsingu Guðfríðar Lilju segir m.a.: "Við gerðum okkur mörg hver vonir um nýja og breytta tíma en því er ekki að leyna að þar hefur margt valdið vonbrigðum. Vonandi bera stjórnmálaflokkar, ríkisstjórn og Alþingi gæfu til þess í framtíðinni að hafna einstefnumenningu hrunsins og fagna þess í stað fjölbreyttum sjónarmiðum. Ýmislegt hefur áunnist þrátt fyrir erfiðleika og ég er stolt af því að hafa tekið þátt í því sem til framfara horfir. Miklu er um vert fyrir litla þjóð að muna eftir öllu því sem sameinar okkur en ekki sundrar og það er óskandi að þeir lærdómar sem dregnir verða af þessu umbrotaskeiði verði til góðs fyrir framtíðina. Ég tók ákvörðun um að fara í stjórnmál til að berjast fyrir betra samfélagi og virðingu fyrir náttúru Íslands og vonast áfram til að geta látið gott af mér leiða með öðrum hætti. Ég þakka stuðningsmönnum víðs vegar að hjartanlega fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt á þessari vegferð og óska samstarfsfólki alls góðs þótt leiðir skilji."

Gagnrýni já, persónuníð nei

Enginn þarf að velkjast í vafa um hvert Guðfríður Lilja er hér að fara. Niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu, hve langt hefur þar verið gengið og annars staðar innan velferðarþjónustunnar, eignarhald á vatni og öðrum náttúruauðlindum, Magma Energy, hverning taka skyldi á skuldavanda heimilanna að ógleymdu Icesave og ESB, eru allt dæmi um mál sem leiddu til átaka, svo einstrengingslegra og óbilgjarnra á stundum, meðal annars í hennar garð, að mig grunar að hér sé komin skýringin á því að hún telur vera forgangsatriði stjórnmálanna að losna úr viðjum „einstefnumenningar hrunsins".
Það er ekkert við það að athuga að menn gagnrýni félaga sína á málefnalegum forsendum. Verra er ef gagnrýnin er af óvild, rætin og ómálefnaleg.

Góðir félagar!

A vinstri væng stjórnmálanna hefur lengi tíðkast að tala um flokksfélaga sína sem félaga. Það þekki ég líka úr verkalýðshreyfingunni. Þetta er falleg hugsun svo lengi sem hugur fylgir máli; að viðkomandi sé annt um þá sem slíka. Á því er þó allur gangur. Þannig sendir Björn Valur Gíslason, alþingismaður, nýlega nokkrum "félögum" sínum, núverandi og fyrrverandi, kveðjur i viðtali í tímaritinu Herðubreið. Úrdráttur úr þessu viðtali hefur birst á netmiðlum og farið víða á netinu að undanförnu, enda Björn Valur löngu búinn að uppgötva að með því að nota nógu groddalegt málfar um menn og málefni getur hann náð athygli fjölmiðla.
Í viðtalinu segir hann að snemma á kjörtímabilinu hafi orðið ljóst að "mörgum hraus hugur við því sem framundan var og virtust ekki hafa bein til að standast álagið. Enda fór það lið á endanum í ýmist aðra flokka eða í óábyrga pólitíska eyðimerkurgöngu sem þau ráfa enn í." Meira af þessu tagi er haft eftir hinum „góða félaga".
Þau sem hljóta að taka þetta til sín eru þau sem núverandi forsætisráðherra kallaði svo smekklega á sínum tíma villiketti fyrir að láta illa að stjórn. Í þeim hópi var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Um sterk bein og veik

Auðvitað hafa margir kiknað i hnjáliðum undan öllu þessu. En það eru ekki Björn Valur eða félagar á Alþingi, heldur fólk sem hefur misst eigur sínar vegna okurkjara, fólkið sem misst hefur vinnuna á heilbrigðisstofnunum, í skólum, félagsþjónustunni og löggæslunni. Við erum búin að heyra margar hreystisögur af ráðamönnum að bjarga þjóð sinni. En er ekki komið nóg af tali okkar um meint afreksverk? Ég hef grun um að hjá ráðamönnum stjórnmálanmna sé ekki hin sterku bein að finna; nema hreystimennin teljist þeir sem duglegastir eru að skera niður, snauðir tilfinningum gagnvart kjörum annars fólks, sjálfir sæmilega óhultir. Gæti það verið svo í hugum einhverra, að því tilfinningalausari sem menn eru þegar niðurskuðrarsveðjum er sveiflað, þeim mun eftirsóknarverðari séu þeir sem stjórnmálamenn og þá væntanlega betri félagar? Þá verður líka skiljanleg hin pólitíska sýn og leiðarljós: Góður félagi! Ef þú samþykkir ekki möglunarlaust það sem fyrir þig er lagt, þá  ert þú veikgeðja villuráfandi vesalingur.
Þegar slík sjónarmið verða ofan á er hætt við að þeim fjölgi sem ekki vilja teljast góðir félagar!

Ekki nóg að komast fyrir hornið

Ég tek undir með Guðfríði Lilju Grétarsdóttur að þessari einstefnumenningu verður að linna. Vinstrihreyfinigin grænt framboð þarf að endurstilla stefnuna eftir að hafa einbeitt sér að því að ausa bátinn í hartnær fjögur ár. Okkur hefur tekist að andæfa gegn virkjunarofbeldi, hamla gegn ásælni erlendra auðmanna, hægja sókn innheimtusveita fjármálavaldsins, hefja alvöru baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, undirbúa sókn til beins lýðræðis. En margt - alltof margt er ógert. Fjármálakerfið er í of ríkum mæli að rísa í sinni gömlu mynd, eignarhaldið á vatninu hefur ekki verið fært almenningi og aðgerðir hafa um of verið sniðnar að því að komast fyrir hornið. 
Við þurfum nú að herða róðurinn og taka slaginn við fjármálavaldið af auknu afli og ganga erinda almennings og þjóðarinnar og gefa ekki eftir með þjónkun gagnvart fjárfrestingarhrægömmum.

Hrunverjar í startholum!

Munum að andvaraleysi okkar getur fært valdatauma í þjóðfélaginu aftur í hendur þeirra sem bjuggu í haginn fyrir hrunið, með einkavæðingu og misskiptingarstefnu á nánast öllum sviðum þjóðlífsins. Það er hollt að hlusta vel eftir því sem talsmenn Sjálfstæðisflokksins mæla þessa dagana. Þeir tala mjúklega en, sjá, enn vilja þeir skera niður og einkavæða og afsala okkur forrræði á auðlindum þjóðarinnar. Vilji menn hreyfa við tilfinningalífi Sjálfstæðisflokksins skulu menn ræða miklvægi þess að færa eignarhald á vatni til almenings. Og hvað skyldi það þýða þegar talað er um skattalækkun og minni ríkisútgjöld annað en einkavæðingu velferðarþjónustunnar.

Viljum eiga samleið með framfarasinnuðu fólki

Með allt þetta í huga þarf félagshyggjufólk og þá sérstaklega við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði að setja á oddinn sem aldrei fyrr, hugsjónir um velferð og jöfnuð og baráttu fyrir eignarhaldi á náttúruauðlindum og lýðræði. Þá munVG eiga samleið með róttæka Íslandi. Annars skilja leiðir með flokknum og framfarasinnuðu fólki. En til þess að þetta megi verða þarf VG að huga að eigin vinnubrögðum og innra lýðræði. Ákvörðun Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur um að segja skilið við stjórnmálin á að verða tilefni til að staldra við; tilefni til endurmats á vinnubrögðum og áherlsum.
Okkur hefur vissulega tekist vel til um ýmislegt á erfiðum samdráttartímum. En í öðru hefurokkur mistekist. Belgingur og hrokatal á því ekki við. Við eigum að sýna umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra sem eru í okkar pólitíska ranni og verða gagnrýnni á okkur sjálf þegar um er að ræða trúverðugleika okkar gagnvart þeim hugsjónum sem við höfum heitið að standa vörð um.