Fara í efni

VIÐ BERUM ENGA ÁBYRGÐ!

Á sínum tíma var gumað af því að Eimskipafélag Íslands væri óskabarn þjóðarinnar. Alþýða manna og bæði hér á landi og í byggðum Vestur-Íslendinga gáfu stórfé til að félaginu tækist að sinna þjóðþrifaverkefnum, sjá um strandsiglingar umhverfis landið og annast millilandasiglingar.

Síðan komu nýir tímar. Peningahyggja nær undirtökum. Burðarás kaupir Eimskipafélagið og eftir kaupin lýsir forsvarsmaður Burðaráss yfir eftirfarandi um eignarhaldsfélag Eimskipafélagsins: " "Hingað til hefur sjóðurinn verið með fjármuni sína bundna í eða í vörslu skipafélags. Það félag hefur hins vegar tekið miklum umskiptum að undanförnu, enda erum við núna orðin fjárfestingarfélag, sem hefur það að meginmarkmiði að fjárfesta erlendis."

Um þessar mundir voru lagðar niður siglingar sem höfðu það markmið fyrst og fremst að þjóna íslensku samfélagi. Það borgaði sig betur fyrir fjárfestingafélagið að ávaxta sitt pund annars staðar en í siglingum á milli Reykjavíkur og Blönduóss og Siglufjarðar.

Umhugsunarefnið er þetta: Nýir eigendur hugsa um það fyrst og fremst að hagnast. Samfélagslegar skyldur koma þeim ekki til hugar.

Þá er það Flugfélag Íslands, Icelandair sem nú er að finna undur hatti FL group. Flugfélag Íslands á langa sögu sem helsta flugfélag þjóðarinnar og í tímans rás hefur þjóðin jafnan komið því til bjargar þegar á hefur þurft að halda. Forsvarsmenn FL group, leggja nú áherslu á að þeir séu fyrst og fremst í forsvari fyrir fárfestingaklúbb. Fl group sé ekki flugfélag þótt klúbburinn eigi flugfélag. Gefum þeim sjálfum orðið á heimasíðu klúbbsins: "

"FL GROUP er nýtt nafn eignarhaldsfélags Flugleiða hf. Nýja nafnið undirstrikar þá þróun sem orðið hefur í starfsemi félagsins á síðustu áratugum, úr því að vera flugfélag með margskonar hliðarstarfsemi yfir í að vera fjárfestingafélag sem á fjölmörg dótturfyrirtæki
- þar á meðal flugfélög..."

Ömurlegt er að horfa upp á þetta.  Að ekki skuli á það minnst að forstjórahópurinn sem er komin í sína aðstöðu vegna þess eins að við – skattborgarinn – höfðum félagið á framfæri jafnan þegar á móti blés: Við erfiðar aðstæður var félaginu jafnan komið til hjálpar. Forstjórahópurinn, að ekki sé minnst á fjárfesta, kærir sig kollóttan um þessa sögu eða um almannahag og er ástæða til að ætla að hann væri tilbúinn að fórna samgönguhagsmunum Íslands ef til þess kæmi, einsog skipafélögin sem hættu að vera skipafélög. Nákvæmlega einsog þau gerðu, felur FL group sig nú á bak við þá yfirlýsingu að grúppan, klúbburinn, sé fyrst og fremst fjárfestiingafélag!!! Slíkt er undanfari þess að firra sig samfélagslegri ábyrgð. Nú á það greinilega að teljast vera í lagi að hugsa um það eitt að græða. Þannig hugsa þessir handhafar auðsins. Því miður.  Staðreyndin hlýtur hins vegar að vera sú að fyrirtæki af þessari stærðargráðu og með þessa sögu um stuðning af hálfu samfélagsins, bera ábyrgð og hafa samfélagslegar skyldur, nokkuð sem Síminn mætti íhuga áður en til frekari uppsagna starfsfólks á landsbyggðinni kemur!

Hvað ætla Íslendingar að að láta það viðgangast lengi að fjármálabraskarar sölsi undir sig eignir sem hafa verið í eigu þjóðarinnar eða á framfæri hennar og geri þær sér að féþúfu? Þegar forstjóri FL group, gömlu Flugleiða telur það vera fogangsverkefni að félagið sjái sér fyrir einkaþotu einsog fram kom á stjórnarfundi félagsins nýlega,  er kominn tími til að staldra við. Eða hvað?

Eitt þykist ég sjá. Þessum mannskap er nákvæmlega sama um samgönguhagsmuni Íslands. Það eina sem gildir er að að huga að fjármálahagsmunum fjárfestingahópsins FL group.

Hvað ætlum við að láta Sjálfstæðisflokk og Framsókn komast lengi upp með að þjóna þessum mannskap? Ætla kjósendur að opna þessum flokkum að nýju leið inn í Stjórnarráð Íslands?

Skylt efni:

https://www.ogmundur.is/is/greinar/hver-gefur-hverjum