VIÐ ERUM EKKI ÖLL SÖGULAUS
Birtist í Morgunblaðinu 08.10.13.
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins er fjallað um Ríkisútvarpið og rifjaðir upp atburðir liðinnar tíðar. Bréfritari fer aftur til ársins 1984, verkfalls opinberra starfsmanna í BSRB, þegar Ríkisútvarpinu var lokað.Við þá atburði hafi meirihluti þingamanna komist á þá skoðun að afnema ætti einokun RÚV og opna fyrir samkeppni á öldum ljósvakans. Bréfritari Reykjavíkurbréfs segir:
Ríkisútvarpið og verkfall BSRB 1984
„Þegar starfsmenn Ríkisútvarpsins ákváðu að loka Ríkisútvarpinu, hreinlega slökkva á því, þótt engin sambærileg stofnun væri til staðar, til þess að styrkja stöðu BSBR í verkfallsbaráttu gegn ríkisvaldinu (ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks) opnuðust augu margra. Það var þá þannig sem starfsmennirnir, með fréttastofuna í broddi fylkingar, litu á „öryggishlutverk" þeirrar stofnunar. Reyndar sá fréttastofan fljótlega að hún hafði leikið af sér, því hún hafði áður gert verkfallsmönnum miklu meira gagn með svívirðilega lituðum fréttum sínum og þrýsti á að hún fengi að opna aftur. Þeir sem gættu ríkra almannahagsmuna á þeim tíma gleyma því seint, hvernig hún var grímulaust misnotuð í kjölfarið."
Og síðan er rakin framganga Ríkisútvarpsins í Búsáhaldabyltingunni og komist að þessari niðurstöðu: „Pólitísk misnotkun, sem vissulega ofbýður sífellt fleirum, er stóralvarleg, en þó er hún eins og hégómi hjá framantöldum atriðum. En saman sýna þau að það er eitthvað stórkostlega brogað við þessa starfsemi og þar á bæ virðist ekki nokkur maður með ábyrgð líta í eigin barm. En kann ekki svo að fara, rétt eins og 1984, að svo alvarleg mistök ásamt viðvarandi og síversnandi misnotkun og yfirgangi fámenns hóps, sem kemst upp með að haga sér eins og hann eigi Ríkisútvarpið, ofbjóði langlundargeði landsmanna og opni augu þeirra?"
Margir þátttakendur
Nú vill svo til að við sem lesum þennan boðskap erum ekki öll sögulaus og sum okkar voru þátttakendur í þeim atburðum sem hér er lýst og taka því þessar sendingar til sín.
Ég var á þessum tíma fréttamaður á RÚV og auk þess formaður Starfsmannafélags Sjónvarps og stjórnarmaður í BSRB og einnig hvatamaður að umræddu verkfalli og lokun Ríkisútvarpsins.
En það voru fleiri þátttakendur. Ríkisstjórnin var einsog bréfritari Reykjavíkurbréfs rifjar upp, samansett á sama hátt og í dag. Framsóknarflokkur fór með forsætisráðherraembættið og Sjálfstæðisflokkur fjármálin en borgarstjórinn var Davíð Oddsson, viðsemjandi starfsmanna Reykjavíkurborgar í umræddum verkfallsátökum.
Skuldakreppa...
Ríkisstjórnin hafði verið mynduð á vordögum árið 1983. Fyrsta verk hennar var að afnema vísitölu launa en láta vísitölu lána halda sér. Þegar verðbólgan náði himinhæðum - á annað hundrað prósent um nokkurra mánaða skeið - æddu lánin upp á við en kaupmátturinn rýrnaði. Upp úr sauð haustið 1983 þegar Sigtúnshópurinn svokallaði sameinaði fólk úr öllum stjórnmálaflokkum til að krefjast úrbóta og átti hann eftir að beita sér allt til ársins 1988 fyrir umbótum í húsnæðiskerfinu. Hremmingarnar sem margir lentu í á þessum tíma voru ekki smáar í sniðum enda töpuðu margir öllu sínu.
... og launakreppa
En launahliðin var á könnu verkalýðshreyfingarinnar. Mörgum þótti hún sein til að rísa upp og var vaxandi ólga innan hreyfingarinnar, einkum í opinbera geiranum, en þar var þá sáralítið launaskrið miðað við það sem viðgengist hafði á almennum vinnumarkaði á þessum tíma. Kjörin versnuðu með ógnvænlegum hraða hjá taxtabundnu launafólki.
Síðsumars 1984 þegar yfirgnæfandi meirihluti BSRB-félaga samþykkti verkfallsboðun gengust heildarsamtökin fyrir upplýsingaherferð um launakjör félagsmanna. Birtar voru í auglýsingatíma Sjónvarpsins myndir af einstaklingum ásamt starfsheiti þar sem sagt var hvað þeir væru með í laun.
Útvarpsráð bannar auglýsingar
Útvarpsráð undir forystu Sjálfstæðisflokksins ákvað að banna þessar auglýsingar og varð það enn til að kynda undir reiði fólks. Þótti þarna vera beitt póiltísku ofríki. Í auglýsingunum var ekkert að finna annað en upplýsingar um launakjör fólks sem var orðið mjög aðþrengt á þessum tíma.
Þegar síðan ríkisstjórnin ákvað að stöðva launagreiðslur til ríkisstarfsmanna, sem áttu lögum samkvæmt að fá fyrirframgreidd laun, 1. október þótt verkfall ætti ekki að hefjast fyrr en nokkrum dögum síðar, boðuðu samtök starfsfólks Ríkissútvarpsins til fundar þar sem ákveðið var að leggja samstundis niður vinnu. Öryggisþjónusta Ríkisútvarpsins var þó ekki skert. Brá nú svo við að hinn pólitíski meirhluti útvarpsráðs gerði allt sem hann gat til að koma í veg fyrir að öryggishlutverki og lágmarksþjónustu væri fullnægt, mættti það verða til að sverta verkfallsmenn.
Krafist fangelsisdóms yfir verkfallsmönnum
Fyrir þetta var síðan reynt að láta okkur gjalda og var okkur nokkrum forsvarsmönnum stefnt fyrri dóm og krafist fangelsis yfir okkur bæði fyrir undirrétti og síðar fyrir Hæstarétti. Þegar ákæran var lesin upp kom fram að eðlilegt væri að ég fengi þyngsta dóminn vegna þess hve gagnrýninn ég hefði verið á embætti Ríkissaksóknara!
Ekki féll dómur á þennan veg en þetta lýsir andrúmsloftinu, þegar „augu margra" þingmanna opnuðust, að sögn bréfritara Reykjavíkurbréfs, fyrir pólitískri misnotkun á Ríkisútvarpinu!
Oft ósáttur við linku Ríkisútvarpsins
Misnotkunin var hins vegar útvarpsráðs en ekki starfsmanna. Af þeirra hálfu hef ég sjaldan orðið var við misnotkun þótt margt megi gagnrýna eins og gengur í öllu starfi. En þá hefur það verið á báða bóga. Hefur mér reyndar lengst af fundist fréttastofur RÚV, útvarps og sjónvarps, heldur linar í gagnrýni á sitjandi stjórnvöld. Það á jú að vera hlutverk þeirra að vera upplýsandi og sýna þeim sem með völdin fara sanngjarnt og faglegt aðhald. Stundum hefur þó prýðilega tekist upp í þessu efni.
Þá hef ég ekki verið sáttur við hve linkulega RÚV hefur stundum staðið með starfsmönnum sínum, til dæmis þegar þáverandi menntamálaráðherra, yfirmaður RÚV, lét þingfréttamann koma á heimili sitt til að lesa honum pistilinn. Afskipti ráðherra og beinn og óbeinn þrýstingur er síður en svo einsdæmi. Það þekkja allir sem hlut eiga að máli.
Þekkti á eigin skinni
Sjálfur fékk ég lengi að kynnast því í starfi mínu á fréttastofum Ríkisútvarpsins, hvernig reynt var að hafa áhrif á fréttamenn með stöðugu áreiti. Ég var talinn hættulega vinstrisinnaður og með tíðum og reglulegum hætti gerðsit það eftir að ég hafði verið með þætti og fréttaauka að mín var beðið í símanum með nafnlaust pólitískt ógnandi skítkast. Var mér sagt af innanbúðarmanni í Sjálfstæðisflokknum á þessum tíma, að þetta væri skipulagt pólitískt einelti frá þeim stjórnmálalflokki ættað.
Þörf á yfirvegun og festu
Nú virðist mér tími hins pólitíska eineltis að renna upp að nýju. Með reglulegu millibili sjáum við hvernig eigendur markaðsmiðlanna misbeita valdi sínu. Ef fer sem horfir verður Ríkisútvarpið nú tekið undir sams konar tyftingarvald. Þessu þarf að mæta af yfirvegun en jafnframt mikilli festu.