VIÐBRÖGÐ VIÐ MANNRÉTTINDABROTUM
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 06.10.13.
„Skyldan til að vernda," („Responsibility to protect"), var heiti skýrslu sem út kom á vegum Alþjóðanefndarinnar um íhlutun og fullveldi ríkja (International Commission on Intervention and State Sovereignty), sem Kanadastjórn hafði komið á fót í árslok 2001. Nefndinni var ætlað að svara spurningum sem Kofi Annan, þáverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, setti fram varðandi rétt og skyldur þjóða að skerast í leikinn þegar mannréttindi eru brotin.
Skýrsluhöfundar komust að þeirri niðurstöðu að ríki ættu að njóta fullveldisréttar innan eigin landamæra, en þau hefðu að sama skapi þær skyldur gagnvart þegnunum að vernda þá fyrir ofríki og ofbeldi. Gætu ríki ekki eða vildu ekki vernda þegnana færðist ábyrgðin þeim til verndar yfir á alþjóðasamfélagið.
Kofi Annan setti spurningar sínar fram á sama tíma og alþjóðasamfélagið hafði ekkert aðhafst þótt ofbeldi og fjöldamorð víðs vegar um heiminn hefðu verið fyrir allra augum.
Þrátt fyrir góðan ásetning við stofnun Sameinuðu þjóðanna, rétt fyrir miðja síðustu öld, að taka á stríðsglæpum með tilkomu „Sáttmálans um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð" (Convention on the Prevention and Punishment of the Crime of Genocide), gerðist lengi vel fátt gagnvart stríðsglæpamönnum. Sameinuðu þjóðirnar reyndust einskis megnugar í meira en hálfa öld og fram undir þennan dag. Kalda stríðið og samsetning Öryggisráðsins sáu til þess að SÞ fékk sig hvergi hreyft þrátt fyrir hryllilega stríðsglæpi og fjöldamorð, allt í skjóli stórveldanna.
Nú kunna að vera teikn á lofti um að heimurinn kunni að vera að vakna til vitundar um að við verðum að finna leið út úr því öngstræti sem við erum í. Árásirnar á Írak, Afganistan og Líbýu færðu landsmönnum hvorki frið né mannréttindi og hvað Sýrland áhrærir sjá menn arfleifð stórveldastjórnmála 19. og 20. aldarinnar birtast í varðstöðu Öryggisráðsins um óbreytt ástand.
Aðgerðaleysi er ekki svarið. Kynþáttastjórnin í Suður-Afríku var felld með baráttu innanlands og jafnframt utanaðkomandi viðskiptabanni og diplómatískum þrýstingi. Þótt John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi verið talsmaður hefndarárásar vegna notkunar efnavopna í Sýrlandi talar hann nú um pólitískan þrýsting ( „the power of diplomacy").
Hér kveður við nýjan tón. Það lofar líka góðu að Obama Bandaríkjaforseti lét af hótunum sínum um árás á Sýrland - a.m.k. um sinn - og ákvað að leita til þings. Sama gerði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Þingið þar sagði nei. Og það er vaxandi þrýstingur á François Hollande, Frakklandsforseta að fara fyrir franska þingið með ákvörðun sína um þátttöku í hernaðaraðgerðum.
Það er til góðs að lýðræðisvæða ákvarðanir um stríð. Margt hefði farið öðru vísi ef svo hefði verið gert fyrr. Og það sem meira er: Ríki heims hefðu tekið upp löngu tímabæra umræðu um aðrar leiðir til að vernda mannréttindi en með sprengjuregni.