VIGDÍS HRÓPAR, KRISTJÁN ÞÓR HVÍSLAR
„Við þurfum að standa fast í lappirnar í fjárlaganefnd þegar komið er fram á þennan árstíma," er haft eftir Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar Alþingis. Hún hefur verið hávær í fjölmiðlum síðustu daga og látið þung orð falla, sagt forsvarsmenn Landspítalans beita „andlegu ofbeldi", við að ná sínu fram, en hún muni ekki erfa það við þá!
Tilefnið voru orðaskipti á milli hennar og framkvæmdastjóra spítalans, Páls Matthíassonar, sem segir skilningsleysis gæta í fjárlaganefnd Alþingis á erfiðri rekstrarstöðu spítalans.
Áhyggjuefni þykir mér vera framkoman gagnvart Landspítalnum sem birtist í orðum formanns fjárlaganefndar. Ég þekki allvel til á Landspítalanum og veit hversu ómakleg ummæli formannsins eru, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.
Áhyggjuefni þykir mér líka vera einkavæðingaráform Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, í heilbrigðiskerfinu, sem hann greinilega vill að fari fram í kyrrþey.
Kristján mætti í fréttir í gær til að játa því aðspurður (að sjálfsögðu), að nú ætti að fara að bjóða út heilsugæslu. Fréttakona spurði hvort slík áform þyrfti ekki að ræða á Alþingi. Ráðherra sagði að sjálfsagt væri að ræða þetta á Alþingi „ef hugur manna þar stæði til þess." Og síðan bætti hann við og nú hvíslaði hann, nánast líkast því að hann vildi ekki vekja þjóðina af svefni, „þetta er spurning um að fjármagn fylgi sjúklingi."
Þeir sem til þekkja vita að þetta er formúla frjálshyggjunnar fyrir einkavæðingu heilbrigðis- og menntakerfisins. Að sjálfsögðu verður heilbrigðisráðherra að skýra áform sín á Alþingi og standa fyrir máli sínu þar enda væri eitthvað undarlegt á seyði ef hugur þingmanna stæði ekki til þess, svo orðalag ráðherrans sé notað, að ræða einkavæðingu heilbrigðiskerfisins í landinu.
Margoft hefur komið fram að þorri landsmanna er andvígur áformum ráðherrans.
Þess vegna talar hann um þau í hálfum hljóðum.