VIL EKKI AÐ SKATTAR MÍNIR RENNI TIL NATÓ
Birtist í DV 26.08.14.
Bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa lýst vilja til að láta meira fé af hendi rakna frá íslenskum skattgreiðendum til hernaðarbandalagsins NATÓ. Undir þetta hefur tekið formaður utanríkismálanefndar Alþingis, Birgir Ármannsson.
Vísar hann til ákalls framkvæmdastjóra NATÓ sem á fundi með íslenskum ráðamönnum í síðustu viku, sagði að nú yrði að auka fjárframlög „vegna vaxandi spennu í Evrópu."
Í fjölmiðlum er haft eftir formanni utanríkismálanefndar að hann sé „sammála því mati Anders Fogh að efla þurfi NATÓ við þær aðstæður sem eru uppi í heimsmálum. Við getum ekki skorast undan því að gera það með þeim hætti sem við best getum."
Seilst í vasa skattgreiðenda
Eftir fund sinn með framkvæmdastjóra NATÓ hafði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra riðið á vaðið með eindregnum stuðningsyfirlýsingum við hernaðarbandalagið. Engum leyndist áhugi utanríkisráðherra á því að leiða framrétta betlihönd gestar síns ofan í vasa íslenskra skattgreiðenda: „Við framkvæmdastjóri NATÓ áttum mjög góð samtöl í þessa veru," er haft eftir ráðherra í Fréttablaðinu föstudaginn 15. ágúst og vísaði hann í mikilvægt hlutverk NATO og að Íslendingum bæri skylda til að leggja sitt af mörkum ekki síst í ljósi þess að blikur væru á lofti í öryggismálum í heiminum. Í sömu frétt er haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, að farið verði yfir málin og kannað „hvar við mögulega gætum bætt í, og þá með hliðsjón af stöðu ríkisfjármála."
Hagsmunir og hernaður
Sjálfur tel ég af og frá að rétta leiðin til að draga úr spennu í heiminum sé sú að vera í slagtogi með herveldum og hernaðarbandalagi sem eru beinir þátttakendur og hagsmunaaðliar í baráttunni um auðlindir jarðarinnar. Öll þekkjum við nýlendusöguna og arfleifð hennar. Afleiðingarnar er glímt við víða um heiminn, einkum í Afríku og Asíu, ekki síst í Mið-Austurlöndum. Tengslin á milli hernaðaríhlutunar og olíuhagsmuna þekkja flestir á okkar tíð.
Breyttar áherslur NATÓ
Sú var tíðin að NATÓ samstarfið var landfræðilega bundið við aðildarríki bandalagsins. Árás á eitt jafngilti árás á öll. Ákvæði þessa efnis er að finna í stofnsáttmála bandalagsins frá 1949. Um miðjan tíunda áratuginn fer að gæta tilrauna af hálfu herveldanna að víkka út þessa hugsun þannig að sá skilningur yrði lagður í ákvæðið að ógn jafngilti árás og ætti einu að gilda hvaðan í heiminum sú ógn kæmi. Þar með hætti NATÓ að vera einvörðungu varnarbandalag gegn innrás í aðildarríkin.
Hvernig skapast ógn og spenna?
Nú má spyrja, hvaða ríki séu líklegust til að telja hagsmunum sínum og öryggi helst ógnað? Það skyldi þó aldrei vera þau ríki sem harðast ganga fram í því að ná tangarhaldi á auðlindum á borð við olíu? Ætla má að gangi ríki hart fram í ásælni eftir auðlindum og beiti mikilli hörku við hagsmunagæslu fyrir gróðaöfl, muni spenna aukast og hættuástand skapast.
NATÓ eigi alls staðar vopnað erindi!
Á hálfrar aldar afmælishátíð í Washington voru þessar nýju áherslur, um að horfa til ógnar í stað beinnar árásar, ræddar af velþóknun og síðan einnig á leiðtogafundum í kjölfarið. Ég minnist þess að íslenskir ráðmenn sæktu slíkan fund í Prag hérna megin við aldamótin og höfðu, eftir því sem ég man best, ekkert nema gott um þessa þróun að segja að því marki sem þeir yfirleitt höfðu á henni skoðun. Ekki virtist heldur vekja áhuga þeirra umræða um nauðsyn þess að auka hreyfanleika NATÓ herja á heimsvísu í samræmi við þá nýju hugsun, að NATÓ ætti að geta beitt hervaldi hvar sem er á jarðarkringlunni.
Íslendingum varasamur félagsskapur
Ég hef oft haldið því fram að eftir þessar áherslubreytingar hafi NATÓ orðið okkur hættulegri félagsskapur en nokkru sinni, og því hættulegri eftir því sem árásargjarnari einstaklingar veljist til forystu herveldanna í NATÓ. Árásargjarn forseti Bandaríkjanna sem gengur erinda auðlindafjármagnsins er Íslendingum þannig stórhættulegur.
Hvað ber að gera?
Það er dapurlegt ef ríkisstjórnin ætlar nú að leyfa sér að „bæta í" peningum frá okkur skattgreiðendum í þessa hervél, sem við eigum að mínum dómi ekki að koma nærri.
Þegar formaður utaaríkisnefndar Alþingis segir að við eigum að bregðast við aðstæðum sem uppi eru í heimsmálum „með þeim hætti sem við best getum", þá eigum við taka hann á orðinu og ræða nákvæmlega þetta.
Úr NATÓ
Ég tel að við eigum að segja okkur hið snarasta úr NATÓ og láta það fjármagn sem þegar rennur þangað úr íslenskum almannasjóðum ganga til starfs á vegum Sameinuðu þjóðanna, friðsamlegra hjálparstofnana og til styrktar margvíslegu rannsóknarstarfi í almannaþágu. Við getum látið mikið gott af okkur leiða með framlagi til vísindarannsókna sem til dæmis tengjast hafinu og jarðfræði og einnig komið beint að aðstoð við fátækar þjóðir á þeim sviðum þar sem Íslendingar búa yfir sérþekkingu.
Munar um minna!
Þá myndi muna um minna fyrir aðþrengda heilsugæsluna á Íslandi að fá hlutdeild í þeim tæpa milljarði (700 - 900 milljónir) sem beint og óbeint rennur úr ríkissjóði árlega vegna aðildar Íslands að hernaðarbandalaginu NATÓ.