Fara í efni

VILJA UNDIR PILSFALD EVRÓPUSAMBANDSINS

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 30.11/01/12.24.


Í upphafi kjörtímabils sumarið 2009 ákvað þáverandi ríkisstjórn að hefja samningaviðræður um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Þetta var málamiðlun ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar og Vinstri grænna. Samfylkingin vildi aðild, VG var henni andvíg. Flokkarnir urðu sammála um að verða ósammála og yrði málið endanlega útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu að afloknum “samningaviðræðum”.

Þetta hljómaði ágætlega í eyrum þeirra sem vildu sjá hvað kæmi út úr slíkum viðræðum við ESB – með öðrum orðum, “hvað væri í pokanum” eins og stundum er sagt.

Við sem töldum að vitað væri hvað væri í pokanum samþykktum þetta engu að síður, þess fullviss að þetta tæki fljótt af enda eindregnustu aðildarsinnar innan ríkisstjórnarinnar á þeirri skoðun að aðildarviðræður tækju varla meira en eitt ár, að hámarki hálft annað ár. Íslandi væri ekki saman að jafna við Austur-Evrópuríki sem byggju við allt annað grunnkerfi og þyrftu fyrir vikið alllangan tíma til að aðlagast Evrópusambandinu. Viðræður Íslands ættu meira sammerkt viðræðum Norðmanna við ESB á tíunda áratug síðustu aldar. Þær viðræður gengu hratt fyrir sig, fátt annað þyrfti að breytast en að samþykkja að lúta Brussel með sömu skilmálum og önnur aðildarríki sambandsins - frávik væru tímabundin. Í ljós kom að margumtalaður poki hafði ekkert annað að geyma en valdaafsal.
Við svo búið höfnuðu Norðmenn aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar komið var fram á árið 2011 hafði það endanlega runnið upp fyrir okkur öllum sem höfðum staðið að þeirri óheillaákvörðun að leita eftir samningum við Evrópusambandið, að “viðræðurnar” yrðu aldrei neinar viðræður nema að yfirborðinu til heldur aðlögun íslenska stjórnkerfisins að regluverki Evrópusambandsins. Þegar það svo kom á daginn að skoðanakannanir á Íslandi tóku að snúast frá stuðningi við ESB aðild - sem verið hafði talsverður á fyrstu mánuðum eftir hrun – og að meirihluti landsmanna hneigðist nú til andstöðu við þá hugmynd, tók ESB að draga lappirnar í „viðræðunum“ í þeirri von að aftur rofaði til.

Innan okkar eigin raða náðist ekki samkomulag um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins svo að binda mætti með afdráttarlausum hætti enda á þetta ferli.

Svo líður tíminn, en viti menn, nú heyrum við einn stjórnmálaflokkinn í aðdraganda þingkosninga setja fram kröfu um að haldið verði áfram þar sem frá var horfið við „samningaborðið.“

Nú ættum við hins vegar að hafa lært það að aðlögun að regluverki Evrópusambandsins á ekki að kalla samningaviðræður því að samningaviðræður eru þetta ekki og voru aldrei. Allt tal um pokann með hinu óséða var aðeins ómerkilegt plat. Nú þarf hins vegar að koma hreint fram, það á að verða lærdómurinn af biturri reynslu okkar.

Með aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði, EES, eru Íslendingar heldur varðari en væru þeir beinir aðilar að ESB, gagnvart sífellt ágengari miðstýringu frá Brussel. Munurinn er vissulega sá að í EES er um raunverulegar undanþágur að ræða og vegur stjórn fiskveiða þar þyngst í okkar tilviki. Hitt er annað mál að EES samningurinn hefur verið látinn þróast langt umfram það sem lagt var upp með þegar hann var gerður fyrir rúmum þremur áratugum. Nefni ég þar tilskipun um samræmdan orkumarkað sem nýlegt dæmi. Fjölmörg önnur dæmi mætti nefna um tilskipanir sem ganga þvert á lýðræðislegan vilja almennings og þjóna fyrst og fremst sérhagsmunum fjármagnsins.

Staðreyndin er sú að þröng markaðshyggja hefur náð heljartökum á Evrópusambandinu sem og reyndar tíðarandanum víðast hvar í okkar samtíma. Lýðræðislegur vilji um eignarhald á auðlindum og landi, jafnvel skipulag grunnþátta samfélagsins, má sín lítils ef markaðslögreglan í Brussel telur gangverki sínu á einhvern hátt raskað. Að mínum dómi er þetta að eyðileggja lýðræðið og skapar óvild og tortryggni í garð regluvarðanna sem bregðast önugir við og brennimerkja alla sem popúlista sem hreyfa andmælum við valdi þeirra.

Að sjálfsögðu eru deildar meiningar um það hvernig beri að móta samfélagið, til aukinnar markaðs- og peningafrjálshyggju eða í gagnstæða átt. Spurningin er hins vegar hvar ákvarðanir um slíka stefnumótun skuli teknar og hversu bindandi þær megi vera. Umræða um þetta er umræða um lýðræði og fullveldi.

Svo er hitt deginum ljósara að ófáir eru þeir stjórnmálamenn sem þykir ágætt að láta fjarlægt vald taka af þeim ómakið, sérstaklega hvað varðar það sem óvinsælt er.
Þá er gott að geta falið sig undir pilsfaldi Evrópusambandsins og sagt þaðan úr öruggu skjóli: Við gátum ekki annað.

-----

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.