Fara í efni

VILJUM VIÐ RJÚFA KYRRÐ ÖRÆFANNA?

Mgginn - sunnudags
Mgginn - sunnudags

Birtist í Sunnudagsmogganum  22.07.12.
Fyrir mörgum árum var ég á ferðlagi í Wales. Á dagskrá var að skoða foss nokkurn sem ég er löngu búinn að gleyma hvað heitir. Hinu hef ég ekki gleymt að ég þurfti að greiða aðgangseyri að fossinum. Ekki var þetta svo há upphæð að hún skipti verulegu máli og ekki tel ég mig vera nískari á eyrinn en gerist og gengur.

En ég man samræður okkar ferðafélaganna eftir að hafa skoðað fossinn. Við vorum á einu máli um að þetta hefði verið óttaleg spræna.

Ekki man ég hvort við höfðum á orði að fossinn hefði ekki verið peninganna virði. Hitt er ljóst að eitthvað óeðlilegt þótti okkur hafa átt sér stað. Undur náttúrunnar ættum við öll en rukkunin hefði fært okkur inn í manngerðan heim viðskipta. Síðan hef ég alltaf lagst gegn því að selja aðgang að náttúrunni.

Allt öðru máli gegnir um þjónustu sem veitt er. Mín vegna má rukka fyrir hana. Það er náttúrlega gert óbeint. Bílafyrirtækið sem flytur fólk að Gullfossi selur þessa náttúruperlu óbeint. Og hvers vegna ekki rukka fyrir salernisaðstöðu? Það gæti þó haft ýmsa ókosti í för með sér. Félítið fólk kynni að leita á vit móður jarðar með erindi sín og sama kynni að eiga við um níska ferðalanga. Hjá sumu fólki á aðhaldssemi sér engin takmörk.

Þess vegna er skynsamlegast að rukka þar sem enginn kemst undan og það er með almennri gjaldtöku, t.d. við komu til landsins. Þetta er vissulega sú braut sem við höfum verið að feta okkur inn á. Á einhvern hátt verður að fjármagna veitta þjónustu.

Kostnaðarsamasta þjónustan er þegar eitthvað fer úrskeiðis, þegar fólk lendir í hremmingum, týnist eða slasast og kalla þarf út björgunarlið. Stundum heyrast þær raddir að rukka beri hinn týnda eða slasaða. Það má aldrei gerast. Það má ekki eyðileggja þetta stolt okkar Íslendinga. Björgunarsveitir okkar hafa unnið ófá afreksverkin. Meira og minna í sjálfboðastarfi. Ef við ætlum ekki að rukka fyrir þjónustu björgunarsveitanna, en jafnframt tryggja þeim afbragðs búnað þurfum við líka að sjá til þess að þær fái nægilegt fjármagn til kaupa á tækjum og tólum með öðrum hætti.

Ég minnist sænskra hjóna sem í fyrra misstu son sinn á Sólheimajökli. Þau þökkuðu björgunarsveitunum íslensku fyrir leitina að syni sínum. Aðstæður höfðu verið erfiðar en kraftur leitarmanna ótrúlegur. Enginn hafði talið neitt eftir sér og aldrei var minnst á kostnað, hvað þá rukkun. Einmitt þetta - fórnarlundina og hjálpsemina dásömuðu hin syrgjandi hjón.

Ef aðeins væri leitað þeirra sem hefðu tryggingakort upp á vasann eða gætu borgað beint liti málið öðru vísi út. Ef hringt væri í aðstandendur og þeir spurðir hvort þeir vildu leggja inn pant eins og stundum gerist nánast af skurðarborðinu á bandarískum spítölum, er hætt við að glansinn færi af öllu saman. Óttaleg spræna var jú sagt eftir skoðunarferðina að fossinum í Wales. Hughrifin skipta máli!

Allt þetta kallar á yfirvegaða umræðu og stöðugt endurmat. Ágangurinn á landið er sums staðar þegar orðinn of mikill. Það er hægt að ofbeita á landi þótt sauðkindin komi hvergi nærri. Mikill fjöldi ferðamanna kallar á aukna þjónustu sem aftur kallar á aukið fjármagn. Við þurfum að skoða gagnrýnið hina efnahagslegu hlið ferðamennskunnar, hvernig við getum best tryggt stöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu svo og samfélagsins sem veitir margvíslega þjónustu - allt þetta þó með það í huga að landið verði aðgengilegt efnalitlu fólki ekkert síður en efnafólki.

Hingað til hafa Íslendingar glaðst yfir því að fá fleiri ferðamenn með hverju árinu. Kannski er kominn tími til að hugsa meira um gæði en magn og að landinu verði hlíft eins og kostur er.

Þetta krefst jafnvægislistar. Annars vegar er að varðveita hið ósnotna, hins vegar að nýta náttúruna í atvinnuskyni. Ef við ekki gerum það gera það aðrir. Og okkar hlutskipti verður hráefna-nýlendunnar.

Kannski er það ekkert sérstaklega snjallt að fá erlendan auðjöfur til að byggja risahótel á Grímsstöðum á Fjöllum til að geta selt öllum þúsundunum, sem þangað koma, einsemdina í Herðubreiðarlindum - kyrrð öræfanna, sem okkur hefur hingað til þótt svo mikilvægt að varðveita.