Vill Björn Bjarnason miðstýra mannréttindabaráttunni?
Birtist í Morgunblaðinu 12.10.04.
Í fyrra fékk Mannréttindaskrifstofan fjórar milljónir á fjárlögum frá dómsmálaráðuneyti. Nú fær hún ekki neitt. Á fjárlagaliðnum þar sem mannréttindaskrifstofan var í fyrra er enn að finna fjórar milljónir og dómsmálaráðuneytið segir að Mannréttindaskrifastofan geti sótt í þann sjóð – eins og aðrir og þá til tiltekinna verkefna. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að Mannréttindaskrifstofan er ekki lengur frjáls. Það er grundvallaratriði að stofnun á við Mannréttindaskrifstofu hafi sjálfstæði og frelsi. Yfir henni er stjórn og sú stjórn leggur línurnar. Sú stjórn ákveður væntanlega einnig verkefnin. Ef þessi nýskipan nær fram að ganga hefur stjórnin eftir sem áður þetta á sinni könnu en við val á verkefnum þarf hún nú að taka tillit til eins atriðis sem hún þurfti ekki áður að huga að: Nú þurfa verkefnin að falla í kramið hjá Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. Er þetta heppilegt fyrirkomulag? Í miðstýrðu lögregluríki þætti þetta eflaust eftirsóknarvert. Í opnu lýðræðisþjóðfélagi er þetta talið afleitt. Í hvora áttina ætlar dómsmálaráðherrann að ganga, í átt til opins þjóðfélags eða lokaðs? Í hvernig þjóðfélagi vill Björn Bjarnason búa?
Áfram fær Mannréttindaskrifstofa fjögurra milljóna króna framlag frá utanríkisráðuneyti. Ljóst má vera að það nægir ekki til að reka skrifstofuna þó ekki sé með nema einum starfsmanni í fullu starfi. Færi svo illa sem nú horfir má spyrja hvaða verkefni legðust af. Skrifstofan hefur sinnt margvíslegu upplýsinga – og fræðslustarfi, haldið fyrirlestra fyrir ýmis félög, framhaldsskóla og háskóla, haldið uppi reglulegum málstofum og ráðstefnum um mannréttindi, skrifað skýrslur fyrir Evrópuráðið um lög og dóma, sem varða ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu, einnig skýrslur til samninganefnda Sameinuðu þjóðanna og leiðbeint einstaklingum um hvernig þeir geti borið sig að við að leita réttar síns í stjórnsýslukerfinu – hinsvegar ekki haft bolmagn til að veita þeim beina lögfræðilega aðstoð í einstökum málum.
Þá hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands unnið umsagnir um lagafrumvörp er varða mannréttindamál með samanburði við alþjóðasamninga sem Ísland á aðild að, meðal annars um frumvörp frá dómsmálaráðuneytinu. Getur hugsast að þær hafi haft áhrif á ákvörðun Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, til dæmis ítarlegar og gagnrýnar umsagnir á sl. ári um fullnustufrumvarpið, útlendingafrumvarpið, og ýmis frumvörp um meðferð opinberra mála sem voru til umræðu á síðasta þingi?
Í alvöru spurt: Er samhengi á milli gagnrýni Mannréttindaskrifstofu á frumvörp dómsmálaráðuneytisins annars vegar og niðurskurðar á framlagi til skrifstofunnar hins vegar?