Fara í efni

VILL MORGUNBLAÐIÐ AÐ ÞJÓÐIN SOFI?

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgublaðinu 10.09.08.
Sagt er að þjóðfélagið taki örum breytingum. Það er ekki nákvæmt orðalag. Nær lagi er að segja að stöðugt sé verið að breyta þjóðfélaginu. Það breytist nefnilega ekki af sjálfu sér. Það eru gerendur á bak við allar breytingar. Stundum verða þeir lítt sýnilegir. Stundum vilja þeir ekki vera sýnilegir. Þegar breytingar eru umdeildar er reynt að láta lítið fyrir þeim fara. Í stórgóðu Reykjavíkurbréfi í Morgunblaðinu 26. janúar í ár er vikið að því að aldrei hafi tekist að brjóta niður velferðarkerfi nokkurrar þjóðar með einkavæðingu nema undir valdboðsstjórn. Önnur leið er náttúrlega að sjá til þess að þjóðfélagið sofi værum blundi og verði breytinganna ekki vart. Þannig minnist ég þess þegar Verslunarráðið, eins og Viðskiptaráð hét þá, flutti inn áróðursmeistarann dr. Pirie. Það var fyrir tæpum tveimur áratugum. Dr. Pirie boðaði einkavæðinguna sem hver önnur trúarbrögð og setti kenningar sínar fram sem boðorð. Í 10 boðorðum dr. Piries var tilgreint hvernig menn skyldu bera sig að við markaðsvæðingu samfélagsþjónustunnar. Ekki hraða sér um of, sagði í einu þeirra, venja þyrfti fólk við tilhugsunina. Bara fara skref fyrir skref. Þetta hafa Bretar gert. Þeir eru nú komnir vel á veg með að einkavæða sitt heilbrigðiskerfi. Það hafa þeir gert með um 30 smærri lagabreytingum á 20 árum. Allar hafa þær verið kynntar sem smávægilegar lagfæringar til þess að auka hagkvæmni, til þess að bæta val sjúklinga og almennings. Í heild sinni hafa kerfisbreytingarnar leitt til hins gagnstæða. Nákvæmlega þetta er nú að gerast á Íslandi.

BSRB hefur látið sig íslenskt velferðarkerfi miklu skipta. Það er í senn vinnusvæði félagsmanna og öll skiptir okkur máli sem þjóðfélagsþegna á hvaða forsendum þjónustan er skipulögð, til að þjóna almannahag eða sem arðsemisrekstur. BSRB hefur því látið til sín taka í þessari umræðu. Framlag samtakanna hefur ekki síst verið í því fólgið að veita þekkingu og reynslu erlendis frá hingað til lands. Færustu fræðimenn hafa verið fengnir til fyrirlestrahalds. Staksteinahöfundur Morgunblaðsis gerir tvo þessara fræðimanna að skotspæni sínum. Þessir fræðimenn eiga það sameiginlegt að gagnrýna einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Ekki treystir Staksteinahöfundur sér til að rökræða málflutning fræðimannanna eða hnekkja röksemdum þeirra. Það er einfaldlega fullyrt að skoðanir þeirra séu slæmar!

Það er dapurlegt hlutskipti fyrir Morgunblaðið að treysta sér ekki í málefnalega umræðu. Kannski finnst blaðinu það vera verðugt pólitískt verkefni að drepa gagnrýninni – og þar með varasamri – umræðu á dreif. Þannig megi fá þjóðina til að sofa af sér breytingarnar.

Höfundur er alþingismaður og formaður BSRB.