Vill Verslunarráðið innræta krabbameinssjúklingum kostnaðarvitund?
Birtist í Morgunblaðinu 18.02.04
Í síðustu viku kynnti Verslunarráð Íslands stefnu sína í heilbrigðismálum. Morgunblaðið greindi frá undir fyrirsögnum um einkavæðingu og sjúklingagjöld: "Vilja hækka kostnaðarhlutfall sjúklinga".
Í fréttinni var fjallað sérstaklega um áherslu á að innræta sjúklingum kostnaðarvitund. Vitnað var í skýrslu Verslunaráðsins um þetta efni: " Notendagjöld hafa þann kost að auka kostnaðarvitund, hafa áhrif á eftirspurn eftir þjónustu og síðast en ekki síst auka þau framboð á þjónustu. Verslunarráð Íslands leggur áherslu á að mörkuð verði stefna um notendagjöld í heilbrigðisþjónustu sem miði að því að auka kostnaðarvitund án þess að skerða möguleika þeirra sem minna mega sín til að nýta sér heilbrigðisþjónustuna."
Við Verslunarráðið vil ég segja þetta. Þegar fólk er orðið veikt þá "má það sín lítils". Mín skoðun er sú að við eigum að láta þá sem "mega sín mikils" borga skatta á meðan þeir eru heilbrigðir. En þegar þeir eru komnir á nærförtin, inn á spítala, eða þurfa yfirleitt að leita læknis vegna veikinda, þá krefjum við þá ekki um peningagreislur. Þá tökum við á móti þeim og reynum að hjálpa þeim, án þess að gera sérstaka leit í vösum þeirra eftir peningum. Fólkinu er einfaldlega hjálpað vegna þess að það er veikt og ekkert spurt hversu mikla peninga það á.
Þetta er sú stefna sem Íslendingar hafa aðhyllst og gera enn. Þess vegna rekum við samfélagslega velferðarþjónustu og höfnum því að krabbameinssjúklingum sé innrætt einhver sérstök vitund um hvað það kosti að lina þjáningar þeirra og veita þeim lækningu en sem betur fer tekst það í stöðugt fleiri tilvikum.
Reynt var að innleiða þessa hugmyndafræði fyrir rúmum áratug og risu sjúklingar þá upp og stofnuðu samtök sér til varnar. Þessi samtök, sem hétu Almannaheill, boðuðu m.a.til mikils útifundar við Alþingishúsið og fengu þar liðsinni bæði frá BSRB og ASÍ. Fljótlega eftir það hvarf þáverandi ríkisstjórn frá því að reyna að innræta krabbameinssjúklingum kostnaðarvitund.
Ég nefni krabbameinssjúklinga sérstaklega. Það geri ég í bland vegna þess að einn helsti hvatamaður að stofnun Almannaheilla, var krabbameinssjúklingur. Hún hét Selma Dóra Þorsteinsdóttir og var formaður Fóstrufélags Íslands og var áhrifakona í BSRB. Þegar þessir atburðir gerðust lá Selma Dóra á krabbameinsdeild Landspítalans. Hún lést skömmu síðar en ég man hvaða áhrif tal um kostnaðarvitund sjúklinga hafði á hana.
Eflaust mun einhver hjá Verslunarráðinu benda á að í skýrslu ráðsins hafi ekki sérstaklega verið fjallað um krabbameinssjúklinga í tengslum við notendagjöld og kostnaðarvitund. Það kann að vera rétt. Að vissu leyti saknaði ég þess, því ég vil að talað sé tæpitungulaust um þessi efni. En ef svo skyldi vera að Verslunarráðið hafi ekki haft krabbameinssjúklinga sérstaklega í huga, við hverja var þá átt? MS sjúklinga, sykursjúka, ofnæmissjúklinga, flogaveika, heilaskaddaða, hjartveika, langveik börn eða fólk sem þjáist af gláku? Auðvitað er Verslunarráð Íslands að tala til sjúklinga almennt, þar með talið krabbameinssjúklinga. Eða er það ekki rétt skilið að Verslunarráð Íslands telji brýnt að innræta veiku fólki almennt, kostnaðarvitund?
Ef þetta er á misskilningi byggt þá þarf að skýra það fyrir okkur og tilgreina þá hópa sjúklinga sem Verslunarráð Íslands hefur sérstaklega í sigti.
Þjóðin þarf hins vegar að taka þessa áskorun Verslunarráðsins alvarlega því hún á hljómgrunn innan ríkisstjórnar og Alþingis. Við þurfum að spyrja hvort það geti virkilega verið helsta forgangsmál á Íslandi í dag að tryggja að veiku fólki sé gerð grein fyrir því hver tilkostnaðurinn er af þeim sjúkdómum sem hrjáir það og þar með þeirri aðhlynningu sem því er veitt.