Fara í efni

VILLIMENNSKA ELUR AF SÉR VILLIMENNSKU

Í dag eru liðin þrjú á frá innrásinni í Írak. Af því tilefni efndi Þjóðarhreyfingin til fundar í Háskólabíói þar sem sýndar voru tvær kvikmyndir eftir Sigurð Guðmundsson myndlistarmann og Ara Alexander Magnússon kvikmyndagerðarmann, önnur tæplega þriggja ára gömul en uppfærð, Ég er arabi, hin brot úr mynd, sem á eftir að verða lengri, 1001 nótt. Báðar er myndirnar mjög áhrifaríkar. Sú síðari reyndar hrikaleg, svo hrottalega atburði sýnir hún, svo ólýsanleg grimmdarverk á báða bóga getur að líta að mann setur hljóðan. Annars vegar sýnir myndin stríðsglæpi Bandaríkjahers og afleiðingar þeirra, morð og limlestingar, pyntingar, eyðileggingu. Hins vegar eru sýnd viðbjóðsleg grimmdarverk ofstækismanna úr röðum íraskra andspyrnumanna: Aftökur á gíslum, greinilega þaulhugsaðar til að vekja ótta og hrylling. Vitneskjan um að gíslarnir hafa yfirleitt verið velviljaðir einstaklingar, vestrænir menn í hjálparstarfi í Írak, iðulega andvígir stríðsrekstri Bandaríkjamanna, eykur enn á hryllinginn. Vitneskjan um nákvæmlega þetta minnir okkur á að öllu því besta í mannlegri hugsun hefur verið úthýst – þakklæti, bræðra- og systraþeli, góðvild –öllu útrýmt.

Grimmd kallar á grimd og villimennska elur af sér villimennsku. Fáir búa yfir slíkum styrk að geta varðveitt velvild og skilning gagnvart féndum sínum og ofsækjendum. Hjá flestum okkar nær hatur og hefnigirni yfirhöndinni við slíkar aðstæður. En það er einnig annað sem gerist: Sjúkir einstaklingar, þeir sem haldnir eru grimmd og kvalalosta dafna og eflast, eru jafnvel hafnir upp til skýjanna, gerðir að hetjum. Þetta er þeirra tími. Nú hafa þeir fengið hlutverk, óeðli þeirra er orðið eðlilegt. Þeir skera höfuðið af varnarlausum fórnarlömbum sínum í krafti dyggðarinnar, í nafni frelsisbaráttunnar!

Séra Örn Bárður, sem stýrði pallborðsumræðum var góður að vanda. Hann minnti okkur á að forsenda fyrir friði og öryggi væri réttlæti. Í pallborðinu var margt ágætt sagt. Hallgrímur Helgason, rithöfundur, sagði, ef ég heyrði rétt: "Bleyðan sækir fram í djúpum stól." Hárrétt! Þetta minnir okkur á hlut Íslendinga, hinnar viljugu þjóðar; eða öllu heldur, þá minnir þetta okkur á hlut ríkisstjórnar Íslands, sem studdi stríðið úr fjárlægð – örugg úr sínum djúpa stól. Í slíkum stól sátu þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, oddvitar ríkisstjórnarinnar þegar þeir létu setja Ísland á lista yfir hinar "viljugu" þjóðir.

Þegar innrásarherirnir flæddu inn í Írak sagðist þáverandi utanríkisráðherra, núverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, þakka guði fyrir að hér væri ekki her svo hann þyrti ekki sjálfur að senda hermenn í stríð en bætti síðan við : "Ég dáist hins vegar að mönnum eins og Tony Blair sem geta tekið slíkar ákvarðanir með yfirveguðum hætti." Það er nefnilega það! (sjá nánar HÉR).

Þjóðarhreyfingin (HÉR) á lof skilið fyrir að standa að þessum fundi og yfirleitt fyrir að halda baráttufánum á loft – fánum í baráttu fyrir réttlæti og lýðræði.

Á Ingólfstorgi var haldinn útifundur á vegum Herstöðvaandstæðinga í dag. Tilefnið var hið sama – þrjú ár liðin frá innrásinni í Írak. Á fundinum töluðu þau Stefán Pálsson, Helgi Hauksson og Sjöfn Ingólfsdóttir. Öll góð.