VINIR ÍSLANDS
Fréttir frá Hollandi herma að Hollendingar fari mikinn í fjölmiðlum þessa dagana um Icesave. Tilefnið eru rogginheit ríkisstjórnarinnar þar í landi yfir að hafa landað hagstæðum samningi við Ísland. Þegar nú fréttir berast að svo kunni að fara að á Íslandi verði ríkisábyrgðin ekki staðfest eins og Hollendingar hafi reiknað með, þá verður mikið óðagot. Verhagen utanríkisráðherra hefur samband við íslenska utanríkisráðherrann og hótar því að Hollendingar muni leggjast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, nokkuð sem vekur blendin viðbrögð á Íslandi. Sumum finnst þetta mikið harmsefni. Öðrum verður þetta tilefni til umhugsunar um annars vegar ágæti Icesave samkomulagsins fyrir okkur Íslendinga og hins vegar um Evrópusambandið og þau bolabrögð sem þar greinilega tíðkast.
Kennslubók í ofríki
Allt Icesave málið er kennslubókardæmi í ofríki. Íslandi er meinað að láta á málið reyna fyrir dómstólum og síðan er haft í hótunum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sigað á okkur, hamast þar innandyra og einnig við okkur beint: Farið að vilja Breta og Hollendinga, annars skulið þið hafa verra af!
Í fjölmiðlum reyna allir þessir "vinir" okkar að láta líta svo út að málið sé ekki svona vaxið. Það er hins vegar skjalfest staðreynd að AGS hefur sett lausn Icesave sem skilyrði fyrir því að banni um fyrirgreiðslu við Ísland verði aflétt. Og sú staðreynd stendur óhögguð þótt fulltrúi AGS hér á landi gerist loðinn í yfirlýsingum þessa dagana. Nú segist hann hvergi koma nálægt Icesave deilunni en bíði átekta hvað Norðurlöndin muni gera. Um bresk og hollensk stjórnvöld þarf ekki að fjölyrða; nægir að vísa í ummæli Verhagens og Gordons Brown, breska forsætisráðherrans, í fjölmiðlum nýlega. Norrænu ríkisstjórnirnar eru litlu betri, samanber þau skilyrði sem þær hafa sett fyrir lánveitingum til Íslendinga. Í bréfi sem fulltrúar þeirra hafa sent okkur er beinlínis sagt að engin norræn lán berist Íslandi fyrr en Icesave hafi verið klárað. (sjá eftirfarandi á island.is, , sjá hér ) Svona gengur kapallinn upp af hálfu „vina" Íslands. Umhugsunarvert.
Látum hótanir herða okkur
Ég ítreka það sem ég hef áður sagt hér á síðunni: Látum ekki stjórnast af hótunum. Látum hótanir þvert á móti verða til þess að herða okkur í ásetningi um að komast út úr vandræðum okkar af eigin rammleik. Um hjálpina að utan hef ég einnig miklar og vaxandi efasemdir í efnahagslegu samhengi.
Eitt enn er umhugsunarefni og það er hve okkur hagstæðar raddir eru farnar að berast frá ýmsum aðilum erlendis frá, sbr. leiðara Financial Times sem er gagnrýninn á bresk stjórnvöld fyrir að sýna Íslendingum óbilgirni. Það er þessum röddum sammerkt að þær eru upplýstar um raunverulega stöðu mála. Getur verið að á það hafi skort af okkar hálfu, að upplýsa almenning í Bretlandi og Hollandi um yfirgang þeirra eigin stjórnvalda og á hve óskammfeilinn hátt þau ganga erinda fjármálakerfis heimsins? Ég hef grun um að eftir markvisst átak til að koma málstað okkar á framfæri gæti fjölgað í vinahópi Íslands, það er að segja þeim sem raunverulega eru okkur vinveitt. Beinum sjónum okkar að almenningi. Hann mun sýna málstað almennings á Íslandi meiri skilning en samansúrrað valdakerfið mun nokkru sinni gera.
Þá mun landið rísa
En hvað er það sem líklegast er til að vinna málstað okkar fylgi? Það er að koma fólki í skilning um að þegar á reynir virka réttarkerfin ekki heldur hnefaréttur hins sterka. Farvegur Icesave deilunnar er óræk sönnun þessa. Þegar allt kemur til alls er almenningi umhugað um að verja grundvallarforsendur lýðræðislegs réttarríkis. Þegar okkur tekst að færa sönnur á að okkur er meinaður aðgangur að réttarkerfunum og í stað þess beitt hnefaréttinum; að við viljum standa við lögformlegar og þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar; að við viljum borga þær skuldir sem okkur ber að greiða, að við viljum endurheimta stolna fjármuni og láta þá alla renna til þeirra sem hafa verið hlunnfarnir; að við virðum skilmála sem við höfum undirgengist, þá mun okkar land rísa á ný.