VIRKISTURN Í NORÐRI?
Er „Sitjandi naut" að semja fyrir Ísland?
Við sem erum andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið erum iðulega sökuð um einangrunarstefnu og jafnvel þjóðrembu. Í mínum huga er ekkert fjær sanni.
Hvað einangrunarstefnuna áhrærir tel ég einmitt vafasamt að einangra Ísland innan múra Evrópusambandsins. Við eigum að staðsetja okkur sem sjálfstætt smáríki, sem nýtur verndar og virðingar heimsins alls.
Af þessari sýn okkar hafa ráðandi fjármálaöfl innan Evrópusambandsins áhyggjur og er titill greinar forseta framkvæmdastjórnar ESB, Hermans Van Rompuy, í Morgunblaðinu 7. maí síðastliðinn, lýsandi fyrir þá afstöðu ESB að stórveldishagsmunum sambandsins verði best borgið með innlimun Íslands. Með greininni er reynt að höfða til litla mannsins í litla landinu. Nú eigi hann möguleika að verða stór, fái að setjast við háborðið - alla vega stundum. Njóti skjóls og verndar. Friðarpípan er látin ganga!
Hver þarfnast hvers?
Titill umræddrar greinar er: „Hvers vegna Evrópa þarfnast þín nú?". Greinin minnir óþægilega á nýlenduhugsun fyrri tíðar. Stórveldisórarnir eru að þessu sinni ekki breskir, franskir, hollenskir, þýskir, spænskir eða portúgalskir. Nú er byggt á hinu evrópska stórríki. Við erum þegar „fimm hundruð milljónir", segir Van Rompuy stoltur, „og náum yfir Evrópu frá Finnlandi til Portúgals og Írlandi til Rúmeníu. Við deilum stærsta markaði heims og mikilvægri löggjöf, flest okkar hafa sameiginlega mynt, við deilum landamærum og pólitískum stofnunum; við deilum fortíð og framtíð. Þið leggið nú hart að ykkur að ganga í lið með okkur."
Það er nefnilega það. Ganga í lið með „okkur" og þá væntanlega gegn „hinum"? Svo er að skilja á forseta framkvæmdastjórnar ESB: „Leyfið mér að minna ykkur á hvað við erum að verja. Evrópubúar njóta forréttinda í heiminum. ...Við erum mesta viðskiptaveldi heims. Þetta er árangur sem vert er að vera stoltur af. Hann sýnir einstaka getu okkar til að þróast og tryggja um leið arfleifð okkar. Við höfum enn getuna til þess. Í breytilegum heimi eru hins vegar önnur svæði tilbúin að gera betur en við efnahagslega. Störf okkar og áhrif eru í húfi."
Sem sagt, standið með okkur gegn hinum: „Í dag bið ég ykkur aðeins um eitt," segir talsmaður ESB, „að staldra við og átta ykkur á því að við Evrópubúar erum í þessu saman." Það vantar bara kröfuna um lífsrými. Allt þekkt og þvælt, málflutningur þeirra sem ekki hafa lesið mannkynssöguna sér til gagns. Við sem gagnrýnum þennan þankagang, erum ásökuð um hroka og þjóðmont, eins og tuttugasta öldin hafi verið þurrkuð út, með öllum sínum mílitarisma og stórveldisdraumum. Við sem viljum gæta auðlinda Íslands, sem við höfum gert af misjafnlega mikilli trúmennsku, og oft í fátækt, erum sögð vaða í villu. Getur það verið? Var þetta allt misskilningur, þjóðremba? Eftir allt saman? Varla. Ekki talar reynslan því máli. Eða hvar værum við nú stödd ef rétturinn til fallvatnanna hefði verið seldur úr landi eins og einhverjir vildu á öndverðri öldinni sem leið?
Nú geta menn haft hvaða skoðun sem þeir vilja á Evrópusambandinu og hvort við eigum heima þar innandyra eða utan. En ég aftek hins vegar framvegis að við sem leyfum okkur að vísa til sameiginlegra hagsmuna Íslendinga þegar auðlindir og nýting þeirra er annars vegar eða veltum því fyrir okkur hvaða fyrirkomulag sé líklegast til að tryggja bein lýðræðisleg áhrif þjóðarinnar, séum sökuð um að vera haldin einhverri annarlegri rembu á sama tíma og svona boðskapur er básúnaður. Kannski það fari að renna upp fyrir einhverjum að raunveruleg ástæða er til að íhuga í alvöru hvernig við best verjum auðlindir okkar og lýðræðið gegn ásælni miðstýrðra stórveldahagsmuna.
Vonast til að við höldum auðlindunum
Einhvers staðar sást í blaði nýlega að ráðamenn væru vongóðir um að verja mætti auðlindir Íslands í samningum við ESB. En hvers vegna skyldum við yfirleitt vilja fórna auðlindum okkar og forræði yfir samfélagi okkar ef ávinningur er enginn sýnilegur annar en að fá að vera þátttakandi í nýju stórríki? Gamalkunnugt ráð, vel þekkt úr nýlendusögunni, er að draga upp mynd af glæstu stórveldi þar sem „við sem erum saman" stöndum keik gegn „öllum hinum". Þetta er að mínu mati röng uppsetning. Spyrja þarf hvort sé vænlegra fyrir okkur - sem erum þrjú hundruð þúsund talsins - að taka þátt í alþjóðasamstarfi sem neytendur á evrópskum stórmarkaði með takmörkuð lýðræðisleg áhrif, eða efla okkur sem fullvalda ríki sem á í samskiptum við önnur ríki með beinni aðkomu að samningum um öll okkar mikilvægustu mál - þar á meðal ráðstöfun sjávarauðlindarinnar, okkar dýrmætasta fjársjóðs? Hvers vegna ættum við að fórna þessari úrvalsstöðu? Ég hef skilning á því sjónarmiði að ósanngjarnt sé að eins lítið samfélag og okkar skuli njóta þeirra forréttinda sem við gerum. En mér er það hins vegar fullkomlega óskiljanlegt að það skulum vera við sjálf sem bjóðumst til að láta réttindin af hendi - ekki í anda réttlætis eða jafnaðarmennsku, heldur bara til að fá að vera með!
Hverju barni er það nú augljóst að Evrópusambandið sækir það fast að fá okkur inn enda augljósir hagsmunir í breyttri heimsmynd. Þá breyttu heimsmynd sjá Kínverjar líka greinilega fyrir sér og er það engin tilviljun hve fyrirferðarmiklir þeir eru að verða hér á landi. Það sem við þurfum á að halda er að horfa ískalt á það hvernig hagsmunum okkar verður best borgið í gerbreyttum heimi. Ég er þeirrar skoðunar að það gerum við best með því að halda þétt utan um auðlindirnar og hafa síðan heiminn allan undir sem markað og samstarfsvettvang í stað þess að múra okkur inni í enn einum evrópskum stórveldisdraumnum.
Hugsum stórt
Við erum hluti af evrópskri menningu og eigum að leggja rækt við það besta sem hún hefur upp á að bjóða, og bjóða Evrópu upp á það besta sem við eigum. Það gerum við ekki sem auðtrúa lítilmagni heldur fólk sem stendur upprétt og lætur ekki rugla sig í ríminu með fagurgala og rembutali. Þegar allt kemur til alls þá erum við ekki eins lítil og stóri maðurinn í Brussel reynir að telja okkur trú um. Aðferðafræði hans er þekkt: Tala alltaf ofan frá og niður. En svo er það hitt sem getur gerst. Þegar knékrjúpandi maður rís á fætur, hættir hann að vera lítill. Og þá verður líka allt skýrara: Hagsmunirnir skiljanlegir og glerperlurnar sýnilegar. Þá sætta menn sig ekki heldur við að verða aumur virkisturn í norðri. Þeir sjá að betri kostir bjóðast.