Fara í efni

VISTVÆNT AÐ VIRKJA GULLFOSS?


Ólafur Jóhann Ólafsson, fjárfestir, "krækti í Goldman Sachs" segir í Fréttablaðinu 14. september síðastliðinn. Fram ckemur að Ólafi þyki það mikill happafengur að fá þennan banka sem er einn stærsti fjárfestingarbanki heims, inn í Geysi Green Energy. Hvers vegna? Jú, vegna þess að Goldaman Sachs fjárfestir, að sögn Ólafs, í vistvænni orku:  ""Þegar það kom fyrst til tals að ég kæmi inn í hluthafahópinn ræddum við um hvað vantaði til að við færum inn á leikvöllinn með sem allra besta lið. Allir voru sammála um að okkur vantaði erlendan samstarfsaðila. Goldman Sachs er hreinlega sá besti sem völ er á, bæði vegna stöðu hans sem fjárfestingarbanka og innan orkugeirans," segir Ólafur Jóhann, en Goldman Sachs starfrækir um tveggja milljarða Bandaríkjadala fjárfestingarsjóð sem fjárfestir í vistvænni orku."

Klisjutal um vistvæna orku

Ekki veit ég hverjir þessir "allir" eru sem Ólafur Jóhann Ólafsson segir að hafi viljað fá erlendan fjárfesti að orkuauðlindum Íslands. Látum það liggja á milli hluta. Staðnæmumst við fjárfestingu í "vistvænni orku" . Ólafur Jóhann segir Íslendinga hafa mikla sérstöðu í þessum geira og standa í fremstu röð í heiminum þegar vistvæn orka er annars vegar.
Þetta þykir mér vera klisjukent tal. Að mínu mati er fráleitt að aðgreina orkuframleiðsluna öðrum þáttum. Spyrja þarf um ferlið allt. Til hvers er virkjað og hverju er spillt? Ef virkjað er til þess að framleiða einnota kókdósir úr áli, eða skriðdreka til árása á íraska alþýðu til að hafa af henni olíuauðlindirnar - er það þá vistvæn virkjun ef virkjunin sjálf er ekki mengandi?

Hugsum stórt í anda baráttukonunnar frá Brattholti
Setja þarf skilgreininguna um vistvæna orku í mun stærra samhengi en Ólafur Jóhann Ólafsson og aðrir áhugamenn um virkjainr á Íslandi gera. Þannig þarf að spyrja um huglæga þætti, viðhorf okkar til náttúru sem spillt er eða fer forgörðum.
Sigríður í Brattholti hótaði því að drekkja sér í Gullfossi ef hann yrði virkjaður. Þannig bjargaði hún þessari náttúrperlu frá eyðileggingu. Sigríður hefði eflaust notað hugtakið vistvænn ef búið hefði verið að finna það upp á hennar tíð. En samkvæmt skilgreiningum virkjanasinna nú um stundir væri hins vegar virkjun fossins hennar Sigríðar, Gullfoss, vistvæn virkjun. Þetta hljótum við að þurfa að hugleiða. Eða hvað?