VÖLDIN HAFA FÆRST TIL AUÐMANNA
Efnahags- og félagslegum ávinningi 20. aldarinnar er ógnað, að mati Ögmundar Jónassonar. Auðmenn deili og drottni á eigin forsendum en ekki samfélagsins og ásælist sífellt fleiri svið til að athafna sig á. Í samtali við Björn Þór Sigbjörnsson kveðst Ögmundur vilja hækka við þá skattana og fela samfélaginu sjálfu að styðja þurfandi. Þeirri víðtæku sátt sem skapaðist um miðbik síðustu aldar um mikilvægi samtakamáttar og almennrar velferðar stendur ógn af gömlum og nýjum sérhyggjulausnum. Þetta er mat Ögmundar Jónassonar, formanns BSRB og þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem óttast að íslenska samfélagsgerðin skaðist af auknum völdum auðmanna.
Hið opinbera hefur veitt fólki frelsi til að athafna sig á sífellt fleiri sviðum samfélagsins. Ögmundur telur viðsjárvert að halda áfram á þeirri braut, einkum í heilbrigðisþjónustu.
„Í mínum huga er ekki verið að stíga framfaraspor heldur hvefa aftur til liðins tíma. Og mér finnst sorglegt að við séum að afsala okkur ávinningi 20. aldarinnar," segir Ögmundur.
Uppskera frjálshyggjunnar
Við spjöllum saman á skrifstofu hans í Vonarstræti 12 þar sem skjöl og skýrslur fylla marga hillumetra. Ögmundur þarf þó hvorki að fletta upp í þeim né sjálfum sér þegar hann talar um hver skuli hafa forræðið í samfélaginu. Hann kann þetta utanbókar.
„Á 20. öldinni uppgötvaðist mikilvægi samtakamáttarins og hve miklu má fá áorkað með samstilltu átaki og samvinnu. Við hefðum aldrei náð þeim árangri sem náðist á sviði vísinda og mennta eða við uppbyggingu velferðarsamfélagsins ef það hefði ekki verið gert með þessum hætti. Um þennan grunn myndaðist merkileg víðtæk sátt og það var ekki fyrr en undir aldarlokin, undir verkstjórn Thatchers og Reagans og vaxandi hirðar þeirra, sem þetta breyttist. Nú uppskera þeir sem sáðu sínum pólitísku fræjum þá. Við sjáum það í aukinni einkavæðingu og í gömlu sérhyggjulausnunum."
Sjúklingar orðnir viðskiptavinir
Ögmundi svíður að horfa upp á stjórnvöld leyfa einkaaðilum að veita þjónustu á sífellt fleiri sviðum heilsugæslu og lækninga og berst hatrammri baráttu gegn því í þinginu.
„Um alllangt skeið hafa fjármálamenn verið þess vel meðvitaðir að innan heilbrigðisgeirans eru miklir peningar. Þeir vilja ná í þessa peninga og þeir hafa notið fulltingis pólitískra handlangara við að undirbúa jarðveg markaðsvæðingar. Menn hefur greint á um notkun hugtaka og umræðunni er stundum drepið á dreif með útúrsnúningi um hvaða orð eigi að nota en mér finnst mjög mikilvægt að þjóðin átti sig á því að markvisst eru stigin skref til að færa heilbrigðisþjónustuna út á markaðstorgið." Í takt við þetta sé nú talað um sjúklinga sem viðskiptavini og innan einkarekinnar heilbrigðisþjónustu er farið að tala um vöruúrval.
Að mati Ögmundar sýnir reynslan að lausnir markaðarins eru ekki alltaf hagfelldar neytendum. Hann segir til dæmis banka og olíufélög ekki keppa á grundvelli lægri vaxta og lægra bensínverðs. Það er keppt um hver sé duglegastur við að gróðursetja tré og hver gefur mest til bæklaðra. Þessi fyrirtæki eru horfin frá því ætlunarverki sem þau sögðust ætla að sinna; að veita vöru og þjónustu á góðu verði."
Launafólk forsenda útrásar
Það er kunnara en frá þurfi að segja að á síðustu árum hafa nokkrir Íslendingar efnast gríðarlega. Til hefur orðið stétt auðmanna, Ögmundi til lítillar gleði. „Ég vil jöfnuð í samfélaginu og þess vegna er mér illa við misskiptingu fjár og misrétti," segir hann. En er honum illa við að menn hagnist af rekstri sínum? „Margir hafa hagnast geysilega á undanförnum árum en það hefur ekki gerst af sjálfu sér. Lífeyrissjóðirnir, sem launafólk greiðir í, hafa gegnt lykilhlutverki í útrásarverkefnum undangenginna ára. Áður runnu peningarnir til uppbyggingar á íslensku velferðarsamfélagi en nú er búið að færa þessa fjármuni yfir í allt annan farveg, yfir í heim fjármagnsins." Hinir ríku hafi því hagnast fyrir tilstuðlan lífeyrissparnaðar íslensks almennings. Fólki mislíki þegar þessir peningar séu notaðir til þess að reisa hallir og kaupa einkaþotur.
Nýverið lét Ögmundur svo um mælt að auðmenn hefðu sagt sig úr lögum við samfélagið. Hann segist eiga við að margir, með sínu framferði, bruðli og bílífi, séu komnir á annan bát en hinir. Þeir lifi öðru lífi og axli ekki félagslega ábyrgð með ráðstöfun fjármuna. Þannig hafi þeir sagt sig úr lögum við okkur hin.
Björgólfur eins og Móðir Theresa
Ögmundur gefur lítið fyrir rausnarlegar gjafir sem sumir auðmannanna hafa látið af hendi rakna til samfélagslegra verkefna og setur við þær spurningarmerki. „Þetta er svona Rockefeller-stíll. Nálgun amerísku milljarðamæringanna. Það er dásamað þegar auðmennirnir gefa fátækum, sjúkum, hrjáðum og listamönnum. Jafnvel Þjóðminjasafnið er orðið háð svona framlögum. Björgólfur er að verða einhvers konar Móðir Teresa, hann læknar og líknar en hvaðan eru peningarnir fengnir? Þeir koma frá samfélaginu og pólitíska spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvort við viljum að auðæfi samfélagsins séu til ráðstöfunar af hálfu þessara aðila í staðinn fyrir að vera undir lýðræðislegri stjórn. Völdin hafa verið færð til auðmannanna og þeir reyna að kaupa sér velvild með aflausnarbréfum."
Ögmundur velkist ekki í vafa um að hann vilji hækka skatta á fyrirtæki, hækka fjármagnstekjuskatt og koma á hátekjuskatti á ný. „Ég vil snúa aftur til jöfnuðar og gera um leið hroka, bruðl og misskiptingu útlæg."
Andvígur farrýmaskiptingu Icelandair
Ögmundur hefur gagnrýnt margfræga Búkarestför forsætis- og utanríkisráðherra á leiguflugvél. Hann segir þá gagnrýni byggjast á sömu forsendum og gagnrýnina á flottræfilshátt auðmannanna. „Þetta er táknrænt um hvert menn vilja halda. Þjóðinni er ögrað," segir hann. En það þarf ekki leiguflugvélar til svo Ögmundur gagnrýni ferðavenjur. Hann er á móti farrýmaskiptingu Icelandair í venjulegu áætlunarflugi. „Sú aðgreining sem gerð er í íslenskum farþegaflugvélum pirrar mig. Og hvað er sammerkt með öllum þeim sem sitja á fyrsta farrými? Enginn borgar fyrir sig sjálfur. Ekki nokkur maður. Allir eru á framfæri annarra, annað hvort fyrirtækja eða hins opinbera, og fá heit handklæði til að þvo sér með og ókeypis kampavín að drekka." Ögmundur veit allt um þjónustuna því í vinnuferðum fljúga alþingismenn oft á fyrsta farrými. „Ég sit iðulega þarna, einfaldlega vegna þess að ég á ekki annarra kosta völ ef miðinn er þannig," segir hann.
Ég er frjálslyndur, sósíalískur anarkisti
Pólitísk skilgreining Ögmundar á sjálfum sér. Þeir straumar sem búa til þann pólitíska kokkteil sem heitir Ögmundur Jónasson eru í fyrsta lagi frjálslyndisstefna af því tagi sem John Stuart Mill boðaði, í öðru lagi sósíalismi og í þriðja lagi anarkismi. Ég hef alltaf verið hrifinn af skilgreiningu Johns Stuarts Mills sem sagði að einstaklingurinn eigi að vera frjáls að því marki sem ekki skaðar annað fólk. Oscar Wilde sagði að sósíalisminn væri einstaklingshyggja fyrir alla. Ég vil virkja kraft einstaklinga en um leið nýta kosti samstöðu og samvinnu. Hugsun í anda anarkismans er síðan bráðnauðsynleg því að hún hamlar gegn ofríki og ofstjórn. Það fólk sem vill ráðskast með aðra hefur alla tíð þvælst fyrir mér.