Vonandi eins og dauð rolla
Einu sinni var sagt um breskan stjónmálamann að hann væri álíka spennandi og dauð rolla. Þessi samlíking kom upp í hugann þegar sagt var frá þeim „stórfenglegu tíðndum“ að ríkisstjórnin sæti sennilega óbreytt áfram, að því undanskildu að Davíð Oddsson hætti sem forsætisráðherra undir lok næsta árs. Í kvöldfréttum í gær var okkur sagt að þetta væru tímamótafréttir. Áhugamönnum um mannganginn á taflborði stjórnmálanna þykja þetta eflaust miklar heimsfréttir en ég hygg að flestir þeirra sem hafa áhuga á alvöru stjórnmálum hafi látið sér fátt um finnast. Reyndar held ég að áhrifin af þessum fréttaflutningi hafi verið gagnstæð. Ég hef meira að segja grun um að þjóðin hafi nánst sokkið ofan í súpudiskinn sinn við fréttirnar. Ekki hef ég hitt einn einasta mann sem telur þetta spennandi fréttir.
Að sjálfsögðu var Halldór Ásgrímsson mættur á skjáinn í gærkvöldi. Ekki var hann eins hláturmildur og við fengum að kynnast í kosningabaráttunni. Hann sagði að stöðugleikinn væri aðalmálið. Sá maður öðrum fremur hefur þó réttilega verið sakaður um að tefla stöðugleikanum í tvísýnu. Það vissu auglýsingastofur Farmsóknarflokksins og hömruðu þess vegan á því að Framsókn öllum öðrum fremur væri talsmaður stöðugleika auk að sjálfsögðu trúverðugleikans. Það er hins vegar ekki nóg að kaupa sjálfshól af þessu tagi, borga milljónatugi til að hamra á því að maður sé alveg sérstaklega vandaður pappír. Stjórnmálaflokkar eru ekki tyggigúmmíverksmiðjur. Þeir bjóða fram stefnu og þeir verða að rísa undir ábyrgð – hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Fyrir hönd þjóðarinnar hljótum við öll að vona að ríkisstjórninni muni farnast betur við landstjórnina á komandi kjörtímabili en reyndin varð á því sem nú er liðið. Þar horfa menn einkum á tvennt með ugg í brjósti: Áherslu Framsóknarflokksins á þungaiðnað og áherslu Sjálfstæðisflokksins á einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Á báðum þessum sviðum vona menn að ríkisstjórnin aðhafist sem minnst. Sennilega væri landinu best borgið ef þessi ríkisstjórn framkvæmdi sem fæst kosningaloforð sín; að hún færi sem mest að ráðum stjórnarandstöðunnar en yrði sem dauð rolla varðandi eigin áherslur. Þannig myndi hún vissulega valda minnstum skaða.