WTO VIÐRÆÐURNAR VERÐI STÖÐVAÐAR
BSRB vill að samningaviðræðurnar á vegum Alþjóðaviðskiptastofn-
unarinnar verði stöðvaðar þar til samningar hafa tekist um nýjar samningsforsendur og lýðræðislegri og opnari vinnubrögð. Geir H. Haarde utanríkisráðherra, sem nú er staddur í Hong Kong á ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnun-
arinnar, WTO, barst í dag bréf frá BSRB þar sem þess er krafist að Íslendingar beiti sér í þessa veru en samskonar kröfur hafa nú verið reistar af hálfu verkalýðshreyfingar og félagasamtaka sem beita sér fyrir almannaheill, víðs vegar um heiminn.
Viðræðurnar núna eru nefndar Doha viðræðurnar. Þær eru þríþættar; í fyrsta lagi um landbúnað, í öðru lag um þjónustu (GATS) og í þriðja lagi vörur á öðrum sviðum svo sem iðnvarning, orkugjafa, námuafurðir, sjávarafurðir og nýtingu skóga (NAMA).
Í bréfi BSRB til Geirs segir m.a. að Doha viðræðurnar hafi „ekki leitt til aukinnar hagsældar alþýðu manna í heiminum eins og heitstrengingar voru um þegar viðræðurnar hófust fyrir rúmum áratug. Þvert á móti hefur hið gagnstæða verið uppi á teningnum. Bilið milli ríkra og snauðra breikkar, atvinnuleysi í fátækasta hluta heimsins vex, jafnframt því sem tök fölþjóðlegra auðhringa á efnahagsstarfsemi heimsins herðast. Þá er ljóst að krafan um markaðsvæðingu almannaþjónustunnar í iðnvæddum ríkjum mun valda atvinnuleysi og leiða til rýrari þjónustu, nái hún fram að ganga.“
Sjá bréfið til Geirs, greinargerð sem PSI og fjölmörg önnur verkalýðs- og félagasamtök hafa sent frá sér vegna fundarins í Hong Kong og þýðingu á greinargerðinni á heimasíðu BSRB.