Fara í efni

ZAYAS FRÁ SAFNAHÚSI Í SAMSTÖÐINA

Síðastliðinn laugardag talaði Alfred de Zayas fyrir fullum sal í Safnahúsinu í Reykjavík. Samdægurs ræddi Karl Héðinn Kristjánsson við hann á Samstöðinni og er viðtalið þegar komið í birtingu á youtube og vef Samstöðvarinnar. Þetta viðtal á efalaust eftir að fá mikið áhorf sem youtube þáttur. Hvet ég lesendur til að gefa sér tíma til að hlusta á þetta vekjandi viðtal Karls Héðins við Alfred de Zayas.

Alfred de Zayas er hafsjór fróðleiks og ómyrkur í máli. Hann segir að fyrir því hafi verið rök að tala um NATÓ sem varnarbandalag á kaldastríðstímanum en eftir hrun Sovétríkjanna og upplausn Varsjárbandalagsins hafi NATÓ breyst, hafi glatað tilgangi sínum og endað sem glæpsamlegur árásaraðili oftar en einu sinni og rói nú öllum árum að auknum vígbúnaði ekki aðeins í Evrópu heldur víðar um heiminn. Í stað þess að stuðla að friði grafi NATÓ undan friðsamlegri sambúð þjóða.

Vesturlönd skorti nú allt sem kalla megi góða dómgreind, segir de Zayas, hvað þá sjálfsgagnrýni. Þau neiti að horfast í augu við eigin ábyrgð á atburðarásinni sem leiddi til Úkraínustríðsins. Sú ábyrgð sé ekki léttvæg.

Þá segir hann með ólíkindum að utanríkisráðherra Íslands skuli hafa tekið þátt í mótmælum í Georgíu gegn lagasetningu um að samtök sem fjármögnuð séu erlendis frá skuli skilgreind sem slík. Þannig lög séu til dæmis í Bandaríkjunum án þess að nokkur sjái ástæðu til að mótmæla þeim. Það sé þekkt að vestrænar leyniþjónustur nýti sér „frjáls félagasamtök“ sem eins konar sauðargæru til að komast inn í þjóðfélög til að grafa þar undan stjórnvöldum og þar með friðnum.

Karl Héðinn Kristjánsson og Samstöðin á þakkir skildar fyrir að taka þetta viðtal. Einhvern tímann hefði Ríkissjónvarpið sýnt því áhuga að tala við mann á borð við Alfred de Zayas. Sá tími er hins vegar löngu liðinn.

Sá tími þyrfti hins vegar að koma aftur. Þá yrði auðveldara að verja Ríkisútvarpið sem stofnun sem hleypir gagnrýnum sjónarmiðum að.

Hér er hlekkur á viðtal Karls Héðins við Alfred de Zayas:  https://www.youtube.com/live/w3006HTNN9c

----------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.