FORMGALLAR OG FRELSARAR
Í fyrra varð Samherji uppvís að athæfi suður í Namibíu sem þótti svo vafasamt að þarlendir samstarfsmenn stjórnenda fyrirtækisins hafa síðan setið í fangelsi á meðan unnið er að rannsókn málsins.
Hér nyrðra höfum við beðið eftir niðurstöðum rannsókna þar til bærra aðila. Eitthvað ætlar það að dragast. En stendur vonandi til bóta.
Eigendur og stjórnendur Samherja bíða hins vegar ekki.
Aðkeyptir “rannsakendur” segja ekkert misjafnt hafa átt sér stað og eins og fyrri daginn er hafið formgallastríð af sömu ætt og háð var við Seðlabankann sem unnið hafði samkvæmt rökstuddum grun og lagaskrift um bann við gjaldeyrisflutningum þegar þjóðfélagið var á hnjánum eftir efnahagshrun. Einhvers staðar fannst hins vegar formgalli sem rekja mátti til öngþveitis hrunáranna. Hann skipti að vísu engu máli varðandi meint svindl. En hentugur var hann til að rífast um og þar með dreifa innihaldinu á dreif. Það endaði með því að ríkisstjórnin vísaði því til lögreglu að kanna hvort uppljóstrara hefði verið að finna í Seðlabankanum um meint gjaldeyrissvik Samherja!
Það var illa ráðið og er þá ekki djúpt tekið í árinni.
Og nú er deilt á Helga Seljan, fréttamann, fyrir að falsa gögn til að geta komið höggi á Samherja en hann ber hita og þunga af fjölmiðlarannsókn á atferli Samherja í Namibíu og í skattaskjólum víðs vegar um heim. Svo er að skilja að meint “fölsun” hafi þegar allt kemur til alls verið sú að sjá til þess að gögn yrðu ekki gerð persónugreinanleg!
Sama aðferðafræðin, sama afvegaleiðingin, og áður. Eru gögn frá Verðlagsstofnun úr skýrslu eða bara skjali? Rífumst svoldið um það á meðan innihaldinu er gleymt.
Skyldi þetta duga til að sefa gagnrýnisraddir? Þetta er aðeins önnur nálgun en sú sem reynd var á Dalvík eftir Namibíuþátt Kveiks. Þá var forstjóri Samherja látinn birtast í kaffistofu fiskverkafólks starfandi hjá fyrirtækinu á Dalvík. Frelsandi faðmurinn var útbreiddur, manni hefði ekki komið á óvart að sjá naglaför í lófum. Verið róleg sagði forstjórinn við starfsfólkið, ég stend með ykkur nú þegar að ykkur er ráðist á ósanngjarnan hátt!
Þá rann það upp fyrir sjónvarpsáhorfendum að þótt fá megi aðkeypta lögfræðinga, “rannsakendur” og ímyndarsérfræðinga, þá verði góð dómgreind sennilega aldrei keypt.
Úr fréttum: https://www.ogmundur.is/is/greinar/glaesileg-innkoma-a-dalvik