Fara í efni

Er samkeppni til hækkunar jákvæð?

Í leiðara Fréttablaðsins í dag er svo að skilja að blaðið fagni samkeppni í raforkumálum! Þetta hljómar undarlega því nú kemur á daginn að fyrstu kynni neytenda af samkeppninni verður hærra raforkuverð um áramótin þegar samkeppnisfyrirkomulag Valgerðar Sverrisdóttur og félaga verður að veruleika. Ekki heyrði ég betur en iðnaðarráðherrann hefði verið varaður við því á Alþingi fyrir þinglokin, að kerfisbreytingunni fylgdi kostnaðarhækkun fyrir neytendur þótt Valgerður reyni nú að þvo hendur sínar af öllu slíku. Þetta er ekki vandaður málflutningur og svo sannarlega ekki í samræmi við yfirlýst markmið raforkulaga sem ætlað er “að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi...tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda.”  Verðhækkanir, samfara kerfisbreytingum í átt til markaðsvæðingar og samkeppni, þurfa engum að koma á óvart og svo Landsvirkjunar- og orkuveitumenn séu látnir njóta sannmælis þá vöruðu þeir einnig við þessum afleiðingum “samkeppninnar”. Á þessu vakti ég einnig athygli í bréfkorni hér á síðunni fyrir nokkru síðan og furðaði mig þá á andvaraleysi fjölmiðla. Sjá hér: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/ny-raforkulog-leida-til-verdhaekkunar-fyrir-almenning=
Kveðja,
Helgi

Þakka þér bréfið Helgi. Ég man að það gaf mér tilefni til nokkurra skrifa hér á síðunni. Sjá t.d. hér.
Kveðja,
Ögmundur