Síðbúnar áhyggjur Ingibjargar Sólrúnar og Björns Bjarnasonar
Sumir fjölmiðlar hafa slegið upp sem stórfréttum nú síðustu daga, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri og varaþingmaður Samfylkingarinnar, telji að Íslendingar hafi hlaupið á sig með því að sækja ekki um undanþágu frá raforkutilskipun Evrópusambandsins. Ingibjörg Sólrún kveikir á þessu árinu á eftir öðrum borgarstjórnmálamanni Birni Bjaransyni, dómsmálaráðherra og borgarstjórnarmanni en það var einnig uppsláttarfrétt á sínum tíma þegar Björn vaknaði um síðir til vitundar um klaufagang ríkisstjórnarinnar í þessu efni.
Það kallar óneitanlega á nokkuð æðruleysi okkar í þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að taka með jafnaðargeði þessum "stórfréttum" í ljósi þess að þingmenn VG voru þeir einu sem vöruðu við þessum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og hvöttu til þess að við gæfum ekki skuldbindingar um skipulagsbreytingar í raforkugeiranum í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins. Öll rök væru fyrir því að fá undanþágu fyrir Ísland. Á þessu hömruðum við á meðan enn var ráðrúm til að aðhafast í málinu. Allt kom fyrir ekki og varð enginn, hvorki innan þings né utan til að taka undir með VG hvað þetta varðar.
Vorið 2000 kom til atkvæðagreiðslu á Alþingi þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar þar sem þeim ásetningi var lýst, að tilskipun Evrópusambandsins í raforkumálum yrði samþykkt. Steingrímur J Sigfússon skilaði minnihlutaáliti í utanríkisnefnd þar sem rökstudd var sú afstaða að undanskilja bæri Ísland hvað þessa tilskipun snertir. Í eftirfarandi netslóð er hægt að nálgast umræður um þetta efni þar sem undirritaður ásamt SJS, gerðum grein fyrir andstöðu okkar við tillögu ríkisstjórnarinnar: http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=125&mnr=587
Í sjálfu sér ber að taka því vel þegar fólk nú kveikir á perunni, jafnvel þótt um seinan sé. Ef til vill er mesta áhyggjuefnið sofandaháttur fjölmiðlanna. Hvers vegna gerðu þeir lítið sem ekkert úr rökstuddri gagnrýni VG á meðan enn var hægt að hafa áhrif á gang mála?
Fréttir nú af síðbúnum áhyggjum og gagnrýni í viðtengingarhætti þátíðar frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Birni Bjarnasyni hjálpar okkur því miður lítið núna. Nema náttúrlega
Ekki veit ég hvort þetta er einhver stefnubreyting hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur því ekki minnist ég þess að hún hafi nokkru sinni gagnrýnt markaðsvæðingarstefnu Evrópusambandsins. Nokkuð er um liðið síðan við sátum bæði í pallborði um framtíðarskipan raforku- og vatnsveitumála á Grand Hótel í Reykjavík og var þá heilmikið skírskotað til einkavæðingar innan Evrópusambandsins og stefnu sambandsins í grunnþjónustu á borð við vatn og raforku. Þar sat einnig, ef ég man rétt Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Ég held mig misminni það ekki að ég hafi verið einn um að vara við markaðsvæðingunni og stefnu Evrópusambandsins í þessum efnum.
En að lokum þetta. Vonandi draga fjölmiðlar af þessu rétta lærdóma. Hér á síðunni hefur verið hvatt til þess að gengið verði á þá Friðrik Sophusson forstjóra Landsvirkjunar og Guðmund Þórodddsson, forstjóra OR og þeir spurðir nánar út í yfirlýsingar sem þeir gáfu á opnum fundi nýlega um að tilkostnaðurinn við markaðsvæðingu væri að öllum líkindum einn milljarður. Stöð tvö var með ágæta frétt í kvöld um afstöðu Reykjavíkurþingmanna til þess hvort þeir teldu eðlilegt að þéttbýlið niðurgreiddi dreifbýlið. Væri ef til vill nær að spyrja er rétt að Íslendingar niðurgreiði markaðsvæðingu raforkukerfisins um milljarð? Verður þetta ef til vill viðfangsefnið eftir nokkur ár þegar þjóðin er farin að borga brúsann? Verður því þá slegið upp þegar einhverjir sem nú eru sofandi gagnvart vandanum, rísa upp við dogg og segja, "það voru stórkostleg mistök að markaðsvæða raforkukerfið"!
Sjá nánar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/kostnadur-vid-samkeppnina-er-milljardur=