FRAMSÓKNARTENGINGIN VAR ÚTLISTUÐ HÉR Á SÍÐUNNI
Í febrúar birtist hér á síðunni lesendabréf frá Stefáni, sem ég las af athygli enda hefur komið á daginn að hagsmunatengsl Framsóknar við einkavæðinguna eru sterk og ámælisverð svo ekki sé djúpt tekið í árinni en einmitt þetta var umfjöllunarefni bréfsins. Ég hvet alla til að rifja efni þess upp. Þar sagði m.a.: "Ég hef ekki hugmynd um Ögmundur hvort bróðir Halldórs Ásgrímssonar er ennþá í stjórn VÍS (eins og hann var þegar Morgunblaðið birti úttekt sína í febrúar í fyrra) sem fékk að kaupa Búnaðarbankann með innlendum félögum og erlendum sjóðum en ætti stjórnarseta hans ekki að hafa gert fyrrverandi utanríkisráðherra vanhæfan til að koma með þeim afgerandi hætti að málinu á sínum tíma sem raun bar vitni? Ef stjórnarsetan tengist eign viðkomandi í Hesteyri ehf. sem Skinney-Þinganes, VÍS og Fiskiðjan Skagfirðingur áttu fyrir ári til jafns þá sýnist mér í ljósi “kjarnastarfsemi” VÍS í uppkaupum og áhrifum í KB banka að ástæða sé til að skoða mál þetta í fullri alvöru. Mér finnst líka fullkomlega eðlilegt að kanna hver eða hverjir eiga hluti Skinneyjar – Þinganes. Ég undirstrika að ég hef ekki hugmynd um það en ef forsætisráðherra á einhverra hagsmuna að gæta hér í gegnum síðast talda fyrirtækið þá ber að spyrja dómsmálaráðherra um það á Alþingi hvort utanríkisráðherrann fyrrverandi hafi með virkri aðkomu sinni að ákvörðunum um sölu Búnaðarbanka Íslands farið á svig við vanhæfisákvæði stjórnsýslulaga...".
Sunna Sara
Sjá nánar HÉR