HVER SKYLDU VERA VINNUKONULAUNIN HJÁ MARGRÉTI PÁLU?
Ég horfði á Margréti Pálu í Silfri Egils draga upp sína einföldu heimsmynd eina ferðina enn. Hún söng markaðshyggjunni sinn vanabundna lofsöng. Um að gera fyrir kvenfólkið að hætta að starfa hjá hinu opinbera – hætta að vera "vinnukonur kerfisins" - og drífa sig út á markaðinn þar sem konur geta ráðið sér sjálfar eins og karlarnir gera. Eða hvað, skyldu allir karlar starfandi á almennum markaði vera kapítalistar sem stjórna eigin lífi í einu og öllu? Nei, aldeilis ekki. Ekki til dæmis strætóstjórarnir hjá Allrahanda – verktökunum sem sjá um strætóakstur með borgarfyrirtækinu Strætó bs. Hjá hinu síðarnefnda eru bílstjórarnir á hærri launum og með betri réttindi en hjá hf-fyrirtækinu. Á einkamarkaði er láglaunafólk ekkert síður en hjá hinu opinbera! Þetta hélt ég að öllum væri ljóst. Svo er greinilega ekki.
Í þættinum hjá Agli var heiminum skipt upp í konur og karla og síðan einnig í opinbera starfsmenn og kapítalista á markaði. Þessi samfélagsgreining getur vissulega skipt máli. Og hún gerir það. En þetta er bara eitt sjónarhorn af mörgum. Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst launamunurinn – á milli láglaunafólks og hátekjufólks, óháð kyni, skipta máli ekki síður en staða kynjanna. Reyndar finnst mér aðal meinsemdin í þjóðfélaginu vera vaxandi kjaramisrétti og það þarf að gæta þess að misskiptingin sé ekki einvörðungu rædd á kynbundnum forsendum. Sú umræða drepur á dreif umræðu um kjaramisréttið á Íslandi. Eins saknaði ég í Silfri Egils og það var að við skyldum ekki upplýst um launakjörin hjá einkafyrirtækinu hennar Margrétar Pálu. Ég gef mér að hún eigi fyrirtækið og stýri því þótt skattborgarinn standi straum af kostnaðinum – en hvað skyldi hún borga sínum vinnukonum?
Ég minnist þess að hér á síðunni hafa farið fram ágætar umræður um þetta efni þar sem sýnt var fram á veikleikana í nálgun Margrétar Pálu. Mér finnst þessir veikleikar reyndar vera augljósir. Eftir umræðurnar hjá Agli í dag sannfærðist ég því miður um að fólk virðist gleypa við hinni einföldu mynd sem Margrét Pála dregur upp. Hún á lof skilið fyrir sannfæringarkraftinn! En skýrinigin á því að hún fær þetta góðan hljómgrunn er líka sú að allt sem er einka á að vera gott nú um stundir. Ég tók eftir því að Guðfinna Sjálfstæðiskona tók andköf af hrifningu!
Sunna Sara
Þakka þér bréfið Sunna Sara. Ég er þér sammála um flest og vek athygli á tengdri umræðu á síðunni HÉR og HÉR og HÉR.
Kv. Ögmundur