Fara í efni

SÓKNIN INN Á MIÐJUNA OG ÝMIS KONAR ÞRÁHYGGJA

Athyglisverður pistill hjá S. Pálssyni. ( Hér er vísað í lesendabréf hér á síðunni 15/12, sjá slóð að neðan ÖJ) Ef mig brestur ekki athygli og minni, byrjaði þessi frasakennda síbylja um "sókn inn á miðjuna" í Staksteinum i miðri prófkjörsbaráttu sjálfstæðismanna í Reykjavík. Höfundur Staksteina virtist hafa samúð með Vilhjálmi og taldi honum það helst til tekna að hann "gæti sótt hratt inn á miðjuna". Pistlahöfundurinn taldi jafnframt að Ingibjörg Sólrún væri að gefa eftir á miðjunni. Þessi skrif virtust einna helst hafa áhrif á tvær konur í Samfylkingunni þær Kolbrúnu og Ingibjörgu. Þáttastjórnandinn Egill sá sér leik á borði til að magna farsann. Pistlahöfundurinn á Blaðinu, sem að eigin sögn hrífst mikið af Staksteinum fyrir stíl og andagift, Kolbrún þessi, virðist haldin undarlegri þráhyggju, hana dreymir að fyrrum vistmaður á dvalarheimili aldraðra stjórnmálamanna, utanríkisþjónustunni, gangi aftur í endurnýjaða pólitíska lífdaga. Þessi sérkennilegu skrif Staksteina virðast hafa sett formann Samfylkingarinnar jafnvel enn meira út af laginu, þar sem hún er byrjuð að slá úr og í í kvótaumræðunni. Þetta kemur m.a. fram í því að hún talar svo óskýrt að hún hefur ekki við að leiðrétta sjálfa sig. Er þetta það sem Mbl á við með því að tækifæri Sf felist í að "sækja hratt inn á miðjuna"?
Sigurður

Þakka þér bréfið Sigurður. Ég læt fylgja slóð á bréfið sem þú vísar til HÉR.
Kv.
Ögmundur